Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-299

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Torfi Ragnar Sigurðsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Manndráp
  • Tilraun
  • Vitni
  • Sönnun
  • Milliliðalaus málsmeðferð
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 11. nóvember 2021, sem barst réttinum 30. sama mánaðar, leitar X leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 1. október sama ár í máli nr. 685/2020: Ákæruvaldið gegn X á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærða var birtur dómurinn 18. október 2021. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðninni.

3. Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir tilraun til manndráps samkvæmt 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa stungið brotaþola með hnífi með 7 cm löngu blaði vinstra megin í kviðvegg með þeim afleiðingum að hún hlaut 5 cm djúpt stungusár sem hefði getað valdið lífshættu þar sem stungan lá nálægt stórum æðum í nára. Var refsing leyfisbeiðanda ákveðin fangelsi í fimm ár.

4. Leyfisbeiðandi telur að öll skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt fyrir veitingu áfrýjunarleyfis. Hann byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til meðal annars þar sem dómurinn hafi byggt á framburði brotaþola hjá lögreglu sem hafi með réttu ekki átt að hafa sönnunargildi í málinu. Þá hafi brotaþoli tjáð sig fyrir Landsrétti ákærða í hag en þess hvergi verið getið í hinum áfrýjaða dómi. Verulegir ágallar hafi jafnframt verið á rannsókn og meðferð málsins. Með sönnunarmati Landsréttar og beitingu réttarreglna hafi leyfisbeiðandi ekki notið réttlátrar málsmeðferðar, einkum með hliðsjón af reglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu, sbr. 111. gr. laga nr. 88/2008. Landsréttur hafi vikið frá þeirri meginreglu að maður sé saklaus uns sekt sé sönnuð og að allan vafa beri að túlka sakborningi í hag. Loks geti niðurstaða Hæstaréttar í málinu haft verulega almenna þýðingu. Með beiðni um áfrýjunarleyfi lagði leyfisbeiðandi fram nýtt skjal með yfirlýsingu brotaþola.

5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt að nokkru leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðninni er því hafnað.