Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-10

A (Kristján B. Thorlacius lögmaður)
gegn
Vátryggingafélagi Íslands hf. (Ólafur Lúther Einarsson)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Slysatrygging
  • Líkamstjón
  • Vátryggingarsamningur
  • Fyrning
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 12. janúar 2023 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 16. desember 2022 í máli nr. 684/2021: Vátryggingafélag Íslands hf. gegn A. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda á hendur gagnaðila um greiðslu bóta úr slysatryggingu launþega, vegna áfallastreituröskunar sem leyfisbeiðandi hefur glímt við eftir að hann tók sem meðlimur í sérsveit lögreglunnar þátt í aðgerð árið 2013 sem leiddi til dauða manns.

4. Með héraðsdómi var gagnaðili dæmdur til að greiða leyfisbeiðanda 2.435.071 krónu en með dómi Landsréttar var gagnaðili sýknaður af kröfu leyfisbeiðanda. Landsréttur hafnaði því að slysatrygging sú sem um er deilt væri höfuðstólstrygging sem um gilti 10 ára fyrningarfrestur samkvæmt 1. mgr. 125. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga og taldi að um væri að ræða hefðbundna slysatryggingu. Landsréttur vísaði til þess að samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda fyrndist krafa um skaðabætur á fjórum árum frá þeim degi er tjónþoli fengi nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ábyrgð bæri á því. Samkvæmt 7. grein skilmála slysatryggingarinnar fyrntist krafa samkvæmt vátryggingunni á fjórum árum og þar segði enn fremur að fresturinn hæfist við lok þess almanaksárs þegar sá er kröfuna ætti hefði fengið nauðsynlegar upplýsingar um atvik sem krafa hans væri reist á. Landsréttur taldi að ætla mætti að leyfisbeiðanda hefði mátt vera ljóst þegar á árinu 2014 að atvikið hefði alvarlegar afleiðingar fyrir hann og fyrningarfrestur í fyrsta lagi byrjað að líða í lok þess árs. Í öllu falli lægi fyrir að leyfisbeiðandi hefði verið metinn með miðlungseinkenni áfallastreituröskunar í desember 2016 og fyrningarfrestur því byrjað að líða í síðasta lagi í lok þess árs. Komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að krafa leyfisbeiðanda hefði verið fyrnd þegar málið var höfðað í mars 2021.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Í fyrsta lagi þar sem Hæstiréttur hafi aldrei áður fjallað um ákvæði 125. gr. laga nr. 30/2004 eða skilgreiningu á höfuðstóls- eða summutryggingu. Í öðru lagi varðandi mat á upphafi fyrningarfrests þegar um er að ræða einkenni sem felast í síðkominni áfallastreituröskun. Í þriðja lagi um það hvort fjögurra eða tíu ára fyrningarfrestur gildi um kröfur úr slysatryggingu. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Vísar hann einkum til beitingar Landsréttar á 9. gr. laga nr. 150/2007, annars vegar þar sem greinin geti ekki átt við um kröfu um bætur úr slysatryggingu launþega þar sem slík krafa sé ekki skaðabótakrafa og hins vegar kveði greinin á um að krafa um skaðabætur vegna líkamstjóns fyrnist á tíu árum en ekki fjórum. Þá telur hann þá niðurstöðu Landsréttar að slysatrygging launþega teljist summutrygging en ekki höfuðstólstrygging í skilningi 8. töluliðar 1. mgr. 2. gr. laga nr. 30/2004 vera bersýnilega ranga. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.

6. Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft fordæmisgildi um fyrningu kröfu á sviði vátrygginga. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.