Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-99
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skaðabætur
- Miskabætur
- Gæsluvarðhald
- Stjórnarskrá
- Dómvenja
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
2. Með beiðni 4. júlí 2022 leitar íslenska ríkið leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 10. júní 2022 í máli nr. 247/2021: Íslenska ríkið gegn A á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um miskabætur úr hendi leyfisbeiðanda vegna frelsissviptingar sem hann sætti í tengslum við rekstur sakamáls sem lauk með dómi Landsréttar þar sem gagnaðili var dæmdur í fangelsi í tvo mánuði fyrir brot gegn 4. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en til frádráttar refsingu kom gæsluvarðhald sem hann sætti frá 17. ágúst 2017 til 10. janúar 2018.
4. Með dómi Landsréttar voru gagnaðila dæmdar 19.000.000 króna í miskabætur en með dómi héraðsdóms höfðu honum verið dæmdar 4.500.000 krónur. Gagnaðili reisti miskabótakröfu sína á því að hann hefði sætt gæsluvarðhaldi í 269 daga og farbanni í 57 daga að ósekju. Þá hefði hann sætt hindrun við að komast úr landi í 15 daga eftir dóm héraðsdóms. Landsréttur tók fram að samkvæmt 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar skuli maður eiga rétt til skaðabóta, hafi hann verið sviptur frelsi að ósekju. Með vísan til þess dagafjölda sem gagnaðili sat í gæsluvarðhaldi og ákvæðis 3. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að gagnaðili hefði sætt gæsluvarðhaldi langt umfram efni og þar með verið sviptur frelsi að ósekju. Landsréttur taldi leyfisbeiðanda einnig bera ábyrgð á gæsluvarðhaldsvist sem gagnaðili hafði sætt á Ítalíu að beiðni íslenskra yfirvalda. Ætti hann því rétt til miskabóta vegna gæsluvarðhaldsvistar í 269 daga. Ekki var fallist á kröfu um miskabætur vegna farbanns, enda hefði verið lögmætt eins á stóð að takmarka för hans með farbanni. Þá var ekki talið sannað að för hans úr landi hefði verið hindruð. Fjárhæð miskabóta var ákvörðuð með vísan til athugasemda með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 128/2019 og dómvenju.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Vísar hann í þeim efnum meðal annars til þess að málið hafi fordæmisgildi um fjárhæð bóta fyrir hvern dag í gæsluvarðhaldi sem og hvort að réttur til bóta geti stofnast þegar sakfellt hefur verið fyrir þau brot sem gæsluvarðhaldsvist stóð í tengslum við. Jafnframt sé mikilvægt að fá úr því skorið hvort íslenska ríkið geti borið bótaábyrgð á því að ítalska ríkið hafi frelsissvipt gagnaðila í kjölfar framsalsbeiðni íslenskra yfirvalda. Þá telur leyfisbeiðandi að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni ríkisins þar sem litið verði til niðurstöðu Hæstaréttar varðandi sakarefni í þessu máli í öðrum málum þar sem krafist er bóta fyrir gæsluvarðhald.
6. Að virtum gögnum málsins og öllu framansögðu verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi um skaðabótaskyldu vegna þvingunaraðgerða við rannsókn sakamáls. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.