Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-74

A (Þorbjörg I. Jónsdóttir lögmaður)
gegn
B (Auður Björg Jónsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Börn
  • Aðför
  • Innsetningargerð
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 19. maí 2022 leitar A leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 9. maí 2022 í máli nr. 230/2022: A gegn B á grundvelli 5. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um að sonur aðila verði tekinn úr umráðum leyfisbeiðanda og afhentur sér með beinni aðfarargerð.

4. Með úrskurði Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að gagnaðila væri heimilt að fá son sinn tekinn úr umráðum leyfisbeiðanda og afhentan sér með beinni aðfarargerð. Í úrskurði Landsréttar kom fram að leyfisbeiðandi og gagnaðili færu sameiginlega með forsjá sonar síns en lögheimili hans væri hjá gagnaðila. Leyfisbeiðandi hefði ekki fallist á að barnið færi til gagnaðila, meðal annars af þeirri ástæðu að það væri andstætt vilja barnsins. Landsréttur vísaði til þess að samkvæmt 1. mgr. 45. gr. barnalaga nr. 76/2003 gæti héraðsdómari komið lögheimili eða forsjá á með aðfarargerð ef sá sem barn dveldist hjá neitaði að afhenda það réttum forsjármanni. Fyrir lægi að héraðsdómari hefði ákveðið að fela sérfræðingi að kynna sér viðhorf barnsins og gefa skýrslu um það, sbr. lokamálslið 1. mgr. 43. gr. barnalaga. Landsréttur féllst á það mat héraðsdóms að ekki væri varhugavert að gerðin næði fram að ganga með tilliti til hagsmuna barnsins, sbr. 1. mgr. 45. gr. barnalaga.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hennar og sonar hennar þar sem framkvæmd aðfarar af þessu tagi feli í sér alvarlegt inngrip í hagsmuni barnsins. Jafnframt hafi úrslit málsins verulegt almennt gildi, bæði til afmörkunar á valdmörkum og efnistökum barnaverndaryfirvalda og við mat á því hvað sé börnum fyrir bestu við töku ákvörðunar í þeirra málum. Þá hafi málið fordæmisgildi meðal annars um rétt barna til að taka afstöðu til alls sem varðar þeirra hagsmuni. Loks er byggt á því að fyrirliggjandi úrskurðir séu rangir annars vegar þar sem ekki hafi verið rannsakaður og metinn vilji barnsins og afleiðingar þess að ekki sé farið að vilja barnsins. Hins vegar þar sem í hinum kærða úrskurði hafi ekki verið fjallað um ný gögn um stöðu og líðan barnsins meðal annars frá læknum hans með tilliti til mats á því hvort varhugavert sé að gerðin nái fram að ganga vegna hagsmuna barnsins, sbr. 1. mgr. 45. gr. barnalaga.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að það hafi slíkt fordæmisgildi að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Jafnframt eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi til eða efni. Þá er þess að gæta að þótt málið varði mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda og sonar hennar háttar svo almennt til í málum sem lúta að ágreiningi um forsjá barna, lögheimili þeirra og umgengni. Beiðninni er því hafnað.