Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-96
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Frávísun
- Kröfugerð
- Stjórnvaldsákvörðun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 12. júlí 2023 leitar Kara connect ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að kæra úrskurð Landsréttar 3. júlí 2023 í máli nr. 168/2023: Kara connect ehf. gegn embætti landlæknis, Origo hf., Sensa ehf. og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Gagnaðilarnir embætti landlæknis, Origo hf. og Sensa ehf. leggjast gegn beiðninni. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur ekki látið málið til sín taka.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að úrskurður kærunefndar útboðsmála frá 22. febrúar 2022 í máli nr. 8/2021 verði ógiltur með dómi að því leyti sem hafnað var kröfum leyfisbeiðanda er lutu að innkaupum gagnaðilans, embættis landlæknis, á hugbúnaðarþróun Sögu sjúkraskrárkerfis og viðbótum við kerfið.
4. Með úrskurði Landsréttar var staðfestur úrskurður héraðsdóms um að vísa frá dómi fyrrgreindri kröfu leyfisbeiðanda. Taldi Landsréttur annars vegar að á það skorti að leyfisbeiðandi gerði í stefnu grein fyrir kröfum sínum í málinu með tilliti til þess hvernig þær samrýmdust niðurstöðu kærunefndarinnar og kröfugerð hans fyrir nefndinni og hins vegar að hann reifaði með viðhlítandi hætti þau sjónarmið sem til skoðunar kæmu að þessu leyti eftir því hvort um væri að ræða nytjaleyfi, viðbætur eða þróun Sögu sjúkraskrárkerfis. Þar sem á þetta skorti þótti framsetning kröfugerðar leyfisbeiðanda og málatilbúnaður hans ekki fullnægja áskilnaði d- og e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið varði mikilvæga almannahagsmuni. Um sé að ræða rétt borgaranna til að bera undir dómstóla úrlausnir stjórnvalda. Standi úrskurður Landsréttar óhaggaður leiði það til þess að einstaklingum og lögaðilum sé torvelt að krefjast ógildingar á úrskurðum stjórnvalda, að hluta, í þeim tilvikum þegar úrskurðarorð eru haldin annmarka. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að málið hafi fordæmisgildi um samspil stjórnsýsluréttar og einkamálaréttarfars. Loks byggir hann á því að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Kröfugerð leyfisbeiðanda beri skýrlega með sér að krafist var ógildingar allra samninga sem varða sjúkraskrárkerfið. Svo virðist sem Landsréttur telji leyfisbeiðanda ókleift að fá þennan þátt úrskurðar kærunefndar útboðsmála felldan úr gildi þar sem hann sé óljós og illa rökstuddur. Þessi niðurstaða sé í andstöðu við stjórnsýslulög nr. 37/1993, lög um opinber innkaup nr. 120/2016 og meginreglur einkamálaréttarfars.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrlausn um kæruefnið geti haft fordæmisgildi þannig að fullnægt sé skilyrðum 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá er ekki ástæða til að ætla að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 3. málslið sömu greinar. Beiðninni er því hafnað.