Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-46

S8 ehf. (Reimar Pétursson lögmaður)
gegn
Íþöku ehf. (Geir Gestsson lögmaður) og íslenska ríkinu (Soffía Jónsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Gagnaöflun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 24. mars 2023 leitar S8 ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að kæra úrskurð Landsréttar 10. mars 2023 í máli nr. 85/2023: S8 ehf. gegn Íþöku ehf. og íslenska ríkinu. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að beiðni leyfisbeiðanda um öflun sönnunargagna áður en mál er höfðað á grundvelli 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991.

4. Með hinum kærða úrskurði Landsréttar var frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur. Í úrskurði Landsréttar kom fram að kröfu um afhendingu gagna samkvæmt 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 yrði ekki beint gegn þeim aðila sem sá, sem setur fram kröfu, hyggst höfða mál gegn, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 24. mars 2010 í máli nr. 84/2010 og 15. maí 2013 í máli nr. 259/2013. Landsréttur vísaði til þess að fram hefði komið í kröfu leyfisbeiðanda að hann hefði til skoðunar að höfða mál gegn gagnaðilanum íslenska ríkinu en gögnin væru í höndum þess aðila. Heimildir leyfisbeiðanda til að afla gagna úr hendi gagnaðilans íslenska ríkisins væru bundnar við 67. og 68. gr. laga nr. 91/1991 og yrði íslenska ríkið því ekki krafið um afhendingu gagna á grundvelli 2. mgr. 77. gr. laganna.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni og hafi fordæmisgildi þar sem í málinu reyni á hvort unnt sé, þegar til álita komi að beina kröfum að íslenska ríkinu, að fá afhent gögn sem er að finna í skjalasöfnum lögbundinna stofnana þess á grundvelli 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 67. og 68. gr. laganna. Hann byggir auk þess á því að niðurstaða um afhendingu gagna hafi grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins. Enn fremur sé niðurstaða hins kærða úrskurðar bersýnilega röng. Engin efni hafi verið til að vísa beiðni hans frá héraðsdómi þar sem gagnaðilinn íslenska ríkið hafi enga kröfu gert um frávísun en íslenska ríkið hafi ekki látið málið til sín taka fyrir Landsrétti. Þá sé sú niðurstaða að vísa beiðninni frá bersýnilega röng. Verði fallist á þá málsástæðu að beiðni beinist að sama aðila og mál yrði höfðað gegn leiði það til þess að hafna beri kröfunni en ekki vísa málinu frá dómi. Loks standist ekki þær forsendur Landsréttar að virða Framkvæmdasýsluna – Ríkiseignir og íslenska ríkið sem einn og sama aðila í skilningi laga nr. 91/1991 en til að slík samsömun gæti átt sér stað þyrfti Framkvæmdasýsluna – Ríkiseignir að bresta aðildarhæfi.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að það hafi slíkt fordæmisgildi að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Jafnframt eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar sömu málsgreinar í málinu á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til eða formi þótt með réttu hefði átt að hafna kröfu leyfisbeiðanda í stað þess að vísa henni frá. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.