Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-71

Lúðvík Bergvinsson (Jónas Fr. Jónsson lögmaður)
gegn
Trausta Hafliðasyni og Myllusetri ehf. (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Tjáningarfrelsi
  • Friðhelgi einkalífs
  • Ærumeiðingar
  • Ómerking ummæla
  • Miskabætur
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 5. maí 2022 leitar Lúðvík Bergvinsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 8. apríl sama ár í máli nr. 136/2021: Lúðvík Bergvinsson gegn Trausta Hafliðasyni og Myllusetri ehf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um ómerkingu þriggja nánar tilgreindra ummæla sem birtust í Viðskiptablaðinu 8. apríl 2020 og síðar á vefsíðu fjölmiðilsins, svo og greiðslu miskabóta úr hendi gagnaðila. Þá krafðist hann þess að gagnaðili, Trausti Hafliðason, yrði dæmdur til refsingar vegna umræddra ummæla og birtingar þeirra samkvæmt 234., 235., 236. og 237. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og til að kosta birtingu dómsins. Loks krafðist leyfisbeiðandi þess að gagnaðila, Myllusetri ehf., yrði gert að birta dóminn í prent- og netmiðli sínum.

4. Í héraðsdómi voru gagnaðilar sýknaðir af öllum kröfum leyfisbeiðanda. Fyrir Landsrétti laut ómerkingarkrafa leyfisbeiðanda eingöngu að einum tilgreindum ummælum og staðfesti rétturinn dóm héraðsdóms um sýknu gagnaðila varðandi þau. Í dómi Landsréttur kom fram að þegar orðalag ummælanna og efni þeirra væri virt í heild yrði ekki talið að þau fælu í sér fyrirvaralausa staðhæfingu um refsivert athæfi en í svokallaðri skoðanagrein af því tagi sem málið varðaði yrði að játa fjölmiðlum nokkurt svigrúm til að ögra og færa í stílinn. Var því fallist á að ummælin fælu í sér gildisdóm þess sem þau ritaði en ekki staðhæfingu um staðreyndir. Jafnframt var fallist á að sá gildisdómur sem í ummælunum fælist ætti sér næga stoð í staðreyndum og að tenging þeirra við fyrri umfjöllun annarra fjölmiðla væri augljós. Þá vísaði rétturinn til þess að leyfisbeiðandi væri fyrrverandi alþingismaður en ummælin sem málið varðaði lytu þó ekki að störfum hans á vettvangi stjórnmála. Allt að einu yrði ekki fram hjá því litið að hann væri þjóðþekktur einstaklingur.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi meðal annars um mörk gildisdóma og staðhæfinga um staðreyndir. Jafnframt reyni í málinu á hvaða kröfur verði gerðar til sönnunar þess að gildisdómur eigi stoð í staðreyndum. Þá telur hann úrslit málsins varða sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína, meðal annars rétt sinn til æruverndar. Loks reisir hann beiðni sína á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Um það vísar hann meðal annars til þess að hin umstefndu ummæli hafi verið staðhæfing um staðreynd en ekki gildisdómur.

6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess geti haft verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.