Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-141

Ferðaskrifstofa Íslands ehf. (Sigurður G. Guðjónsson lögmaður)
gegn
Ólafi G. Gústafssyni (sjálfur)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Neytendakaup
  • Afpöntun
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 18. nóvember 2022 leitar Ferðaskrifstofa Íslands ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 11. nóvember í máli nr. 557/2021: Ferðaskrifstofa Íslands ehf. gegn Ólafi G. Gústafssyni. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila á rætur að rekja til þess að gagnaðili afpantaði pakkaferð til Ítalíu sem hann hafði keypt af leyfisbeiðanda vegna útbreiðslu faraldurs COVID-19. Aðilar deila um hvort gagnaðili eigi rétt til endurgreiðslu úr hendi leyfisbeiðanda.

4. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu gagnaðila með vísan til forsendna dómsins. Í héraðsdómi var meðal annars vísað til þess að ör útbreiðsla COVID-19 sjúkdómsins á áfangastað hefði falið í sér óvenjulegar og óviðráðanlegar aðstæður í skilningi 11. töluliðar 4. gr. laga nr. 95/2018 um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, sem hefði haft afgerandi áhrif á fyrirhugað ferðalag gagnaðila og fjölskyldu hans og gert það að verkum að ekki hefði verið öruggt fyrir þau að ferðast þangað. Var því fallist á að gagnaðili ætti af þeim sökum rétt til fullrar endurgreiðslu pakkaferðarinnar úr hendi leyfisbeiðanda á grundvelli 3. mgr. 15. gr. sömu laga.

5. Leyfisbeiðandi byggir í fyrsta lagi á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu sem selja pakkaferðir eða samtengda ferðaþjónustu í skilningi laga nr. 95/2018. Í öðru lagi varði málið mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda þar sem það hafi verulega fjárhagslega þýðingu fyrir hann. Í þriðja lagi byggir hann á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til þar sem niðurstaðan byggist á rangri lögskýringu. Vísar leyfisbeiðandi einkum til þess að framkvæmd pakkaferðar í skilningi 3. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2018 sé ávallt á forræði og ábyrgð skipuleggjanda eða smásala en ekki ferðamanns. Treysti ferðamaður sér ekki í pakkaferð sem framkvæmd hafi verið með þeim hætti sem kveðið var á um við sölu geti hann ekki losnað undan skuldbindingu sinni á grundvelli 3. mgr. 15. gr. heldur eigi hann aðeins þann rétt að afpanta ferð fyrir upphaf hennar og greiða þóknun í samræmi við reglur um afpantanir fyrir upphaf ferðar. Leyfisbeiðandi vísar jafnframt til þess að kröfuréttindi hans á hendur farþegum njóti verndar eignarréttarákvæðis 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þá byggir hann á því að skilyrði 3. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2018 þurfi hlutrænt séð að vera uppfyllt. Það geti ekki hafa verið undir huglægu mati gagnaðila komið hvort force majeure hafi verið til að dreifa 28. febrúar 2020 þegar hann ákvað að hætta við þátttöku í pakkaferð sem hófst sjö klukkustundum síðar og var í fullu samræmi við samninginn sem var gerður.

6. Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi um rétt til endurgreiðslu vegna afpöntunar pakkaferðar. Umsókn leyfisbeiðanda um áfrýjunarleyfi er því tekin til greina.