Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-92
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skaðabætur
- Viðurkenningarkrafa
- Kröfuréttur
- Verksamningur
- Málflutningsyfirlýsing
- Lagaskil
- Fyrningarfrestur
- Fyrning
- Skuldskeyting
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
2. Með beiðnum 27. og 28. júní 2022 leita annars vegar Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús ohf. og hins vegar Situs ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 3. sama mánaðar í máli nr. 203/2021: Íslenskir aðalverktakar hf. gegn Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúsi ohf. og Situsi ehf. og til réttargæslu Reykjavík Development ehf. og gagnsök á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðnunum.
3. Málið lýtur að kröfu gagnaðila um viðurkenningu á rétti sínum til skaðabóta úr hendi leyfisbeiðenda á þeim grundvelli að þeir hafi ekki gætt að því við framsal á tilteknum byggingarreitum á lóðinni að Austurbakka 2 í Reykjavík í apríl og ágúst 2013 að kaupendur byggingarreitanna skuldbindu sig beint gagnvart gagnaðila til að virða rétt hans til verktöku samkvæmt rammasamningi 9. mars 2006. Hafi það leitt til þess að áðurgreindur réttur gagnaðila hafi ekki verið virtur við byggingu bílakjallara undir byggingarreitunum.
4. Með héraðsdómi voru leyfisbeiðendur sýknaðir af kröfu gagnaðila. Með dómi Landsréttar var hins vegar fallist á kröfu gagnaðila. Í dómi Landsréttar var meðal annars vísað til þess að Situs ehf. hefði viðurkennt að hafa tekist á herðar þá skuldbindingu gagnvart gagnaðila að virða rétt hans til verktökunnar. Krafa gagnaðila vegna vanefnda leyfisbeiðenda á rammasamningnum 9. mars 2006 hefði stofnast þegar samningurinn komst á og því hefðu lög nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda gilt um kröfuna, sbr. 28. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda og krafan því ekki fyrnd. Enn fremur hefði ekki orðið skuldskeyting sem leitt hefði til þess að réttindi gagnaðila samkvæmt samningnum hefðu farið forgörðum. Var því fallist á kröfu gagnaðila um viðurkenningu á bótaskyldu leyfisbeiðenda.
5. Leyfisbeiðendur byggja á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um túlkun laga nr. 150/2007, einkum lagaskil gagnvart eldri lögum nr. 14/1905, hvenær krafa stofnast og upphaf fyrningarfrests. Leyfisbeiðendur byggja jafnframt á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína, enda nemi meint tjón gagnaðila í það minnsta 11% af byggingarkostnaði bílakjallarans. Loks byggja þeir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, einkum um túlkun á lögum nr. 150/2007 og um óskipta ábyrgð leyfisbeiðenda gagnvart gagnaðila á grundvelli rammasamningsins frá árinu 2006.
6. Að virtum gögnum málsins verður litið svo á að dómur í því kunni að hafa fordæmisgildi um fyrningu skaðabótakrafna innan samninga og um lagaskil yngri og eldri laga um fyrningu kröfuréttinda. Beiðnir um áfrýjunarleyfi eru því samþykktar.