Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-241

Guðmundur Gíslason, Margrét Margrétardóttir (Guðjón Ólafur Jónsson lögmaður), Karl Lárus Hjaltested, Sigurður Kristján Hjaltested (Sigmundur Hannesson lögmaður), Hansína Sesselja Gísladóttir (Sigurður G. Guðjónsson lögmaður), Markús Ívar Hjaltested og Sigríður Hjaltested (Valgeir Kristinsson lögmaður)
gegn
Magnúsi Pétri Hjaltested (Sigurbjörn Þorbergsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Dánarbú
  • Erfðaskrá
  • Eignarréttur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 1. október 2021 leita Guðmundur Gíslason, Hansína Sesselja Gísladóttir, Karl Lárus Hjaltested, Margrét Margrétardóttir, Markús Ívar Hjaltested, Sigríður Hjaltested og Sigurður Kristján Hjaltested leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 16. september sama ár í málinu nr. 351/2021, á grundvelli 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðenda um að úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. maí 2021 sem staðfestur var af Landsrétti verði felldur úr gildi en með honum var viðurkennt að skiptastjóri í dánarbúi Þorsteins Hjaltested skyldi afhenda gagnaðila jörðina Vatnsenda í Kópavogi með öllu því sem henni fylgir og fylgja ber til ábúðar, hagnýtingar, umráða og afnota samkvæmt fyrirmælum erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested 4. janúar 1938 og 29. október 1940.

4. Með fyrrnefndum úrskurði Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að afhenda gagnaðila jörðina til framangreindra nota. Í úrskurði Landsréttar var meðal annars vísað til þeirrar niðurstöðu héraðsdóms að fyrir lægi niðurstaða Hæstaréttar um að gagnaðili hefði við andlát föður síns öðlast þau réttindi sem hann krefðist viðurkenningar á og að sá réttur hefði orðið virkur við andlátið. Þá var rakið að ástand húsa á jörðinni og efasemdir leyfisbeiðenda um hvort þar væri hægt að halda hesta og kindur svo og hvort jörðin uppfyllti skilyrði ábúðarlaga, gæti engu breytt um rétt gagnaðila til umráða og afnota af jörðinni samkvæmt erfðaskrá þeirri sem hann leiddi rétt sinn frá.

5. Leyfisbeiðendur byggja í fyrsta lagi á því að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni. Í þeim efnum vísa þeir til þess að málið hafi mikla samfélagslega þýðingu og því sé eðlilegt að Hæstiréttur skeri úr um endanlega niðurstöðu þess. Í öðru lagi byggja leyfisbeiðendur á því að kæruefnið hafi fordæmisgildi. Vísa þau til þess að niðurstaða málsins yrði fordæmisgefandi varðandi réttarsamband handhafa beins eignarréttar annars vegar og óbeins eignarréttar hins vegar. Í þriðja lagi byggja leyfisbeiðendur á því að ástæða sé til að ætla að hin kærða dómsathöfn sé bersýnilega röng að efni til. Í þeim efnum telja þau skiptastjóra dánarbús Þorsteins Hjaltested ekki hafa lagalega heimild til þess að afhenda gagnaðila umrædda jörð, enda sé jörðin ekki eign dánarbúsins og verði því ekki afhent úr búinu. Þá vísa leyfisbeiðendur til þess að ekki sé hægt að afhenda réttindi úr dánarbúi Þorsteins Hjaltested áður en skiptum á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested er lokið en það bú sé handhafi beins eignarréttar að jörðinni Vatnsenda. Loks telja leyfisbeiðendur að handhafi hins óbeina eignarréttar, umráða- og afnotaréttindanna, þurfi að uppfylla skilyrði erfðaskrárinnar frá 1938. Það hefði verið ófrávíkjanlegt skilyrði samkvæmt henni að handhafinn hefði búsetu á jörðinni og stundaði þar búskap. Byggja leyfisbeiðendur á því að umrædd jörð sé ekki lengur þess eðlis að þar verði búið og stundaður búskapur og því beri að hafna kröfu gagnaðila.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni eða hafi slíkt fordæmisgildi að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðninni er því hafnað.