Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-260

A (Daníel Isebarn Ágústsson lögmaður)
gegn
Mosfellsbæ (Kristín Edwald lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Málefni fatlaðs fólks
  • Sveitarfélög
  • Skaðabætur
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 22. október 2021 leitar A leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 8. sama mánaðar í málinu nr. 226/2021: Mosfellsbær gegn A á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili tekur ekki afstöðu til beiðninnar að öðru leyti en því að hann telur skilyrðum 4. málsliðar 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 ekki fullnægt í málinu.

3. Mál þetta lýtur að kröfum leyfisbeiðanda á hendur gagnaðila um annars vegar greiðslu miskabóta að fjárhæð 2.500.000 krónur og hins vegar um viðurkenningu á skaðabótaskyldu vegna fjártjóns. Kröfur sínar grundvallar leyfisbeiðandi á því að meðferð og afgreiðsla gagnaðila á umsókn hans 4. október 2018 um notendastýrða persónulega aðstoð hafi verið ólögmæt og haldin verulegum annmörkum.

4. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 24. mars 2021 var gagnaðila gert að greiða leyfisbeiðanda 700.000 krónur í miskabætur og fallist á kröfu hans um viðurkenningu á skaðabótaskyldu gagnaðila. Með framangreindum dómi Landsréttar var gagnaðili sýknaður af kröfum leyfisbeiðanda. Í dómi Landsréttar kom meðal annars fram að ekki yrði fallist á það með leyfisbeiðanda að gagnaðila hefði borið að semja við hann um notendastýrða persónulega aðstoð óháð því hvort ríkið hefði efnt lögbundnar skyldur sem á því hvíldu um fjármögnun þjónustuúrræðisins með gagnaðila. Þá yrði ekki talið að leyfisbeiðandi hefði sýnt fram á að hann hefði orðið fyrir fjártjóni vegna málsmeðferðar gagnaðila. Var gagnaðili því sýknaður af viðurkenningarkröfu leyfisbeiðanda. Þá komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að ekki yrði fallist á að gagnaðili hefði við meðferð málsins komið fram við leyfisbeiðanda þannig að í því fælist ólögmæt meingerð í hans garð sem veitti rétt til miskabóta samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

5. Leyfisbeiðandi byggir í fyrsta lagi á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Í þeim efnum vísar hann til þess að um sé að ræða fyrsta dómsmálið þar sem reyni á ákvæði I til bráðabirgða í lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir þar sem fjallað sé um innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar. Leyfisbeiðandi telur að niðurstaða Landsréttar snerti réttarstöðu allra þeirra einstaklinga sem átt geta rétt til slíkrar aðstoðar samkvæmt 11. gr. laga nr. 38/2018 á tímabilinu 2018-2022. Þá vísar hann til þess að úrslit málsins hafi fordæmisgildi varðandi meðal annars heimildir sveitarfélaga til þess að synja einstaklingi um þjónustu á þeim grundvelli að ríkið hafi ekki veitt fjármagni til málaflokks án tillits til aðstæðna hlutaðeigandi einstaklings. Í öðru lagi byggir leyfisbeiðandi á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hans bæði með tilliti til þýðingar úrslita málsins fyrir sig sem og þeirrar verndar sem hagsmunirnir njóta samkvæmt stjórnarskrá og alþjóðlegum mannréttindareglum. Í þriðja lagi byggir hann á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Um það vísar hann til þess að með dómi Landsréttar sé vafi um inntak þeirra réttinda sem löggjafinn hafi mælt fyrir um í 11. gr. laga nr. 38/2018 skýrður borgurunum í óhag og að sú lögskýring eigi sér enga stoð.

6. Að virtum gögnum málsins verður litið svo á að dómur í því kunni að hafa fordæmisgildi um þau atriði sem leyfisbeiðandi byggir á þannig að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.