Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-120

Sveinn Andri Sveinsson (Þorsteinn Einarsson lögmaður)
gegn
Leiti eignarhaldsfélagi ehf., Sjöstjörnunni ehf. og Stjörnunni ehf. (Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Dómkvaðning matsmanns
  • Kæruheimild
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 22. september 2022 leitar Sveinn Andri Sveinsson leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 9. sama mánaðar í málinu nr. 463/2022: Leiti eignarhaldsfélag ehf., Sjöstjarnan ehf. og Stjarnan ehf. gegn Sveini Andra Sveinssyni, á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að framangreindur úrskurður Landsréttar verði felldur úr gildi og að synjað verði um dómkvaðningu matsmanns.

4. Með úrskurði héraðsdóms var beiðni um dómkvaðningu matsmanns hafnað. Með úrskurði Landsréttar var fallist á kröfu gagnaðila um dómkvaðningu. Leitar leyfisbeiðandi kæruleyfis til að fá þeirri niðurstöðu hnekkt.

5. Einungis í þeim tilvikum þar sem mælt er fyrir um kæruheimild í öðrum lögum er unnt að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurði Landsréttar samkvæmt 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Reynir í þeim tilvikum á mat Hæstaréttar á því hvort kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni, hafi fordæmisgildi eða grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins eða hvort ástæða er til að ætla að hin kærða dómsathöfn sé bersýnilega röng að formi eða efni. Í máli þessu hagar á hinn bóginn svo til að sérstaka kæruheimild um það efni sem kæruleyfi lýtur að er ekki að finna í öðrum lögum, sbr. ákvörðun Hæstaréttar 6. september 2022 í máli nr. 2022-90. Þegar af þeirri ástæðu er beiðni um kæruleyfi hafnað.