Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-159

Björn Ingi Hrafnsson (Sveinn Andri Sveinsson lögmaður)
gegn
þrotabúi Pressunnar ehf. (Guðmundur Ómar Hafsteinsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Gjaldþrotaskipti
  • Ógjaldfærni
  • Endurgreiðslukrafa
  • Skaðabætur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 11. júní 2021 leitar Björn Ingi Hrafnsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 14. maí sama ár í málinu nr. 168/2020: Björn Ingi Hrafnsson gegn þrotabúi Pressunnar ehf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um að rift verði annars vegar veðsetningu á tilteknum eignum Pressunar ehf. með lánssamningi 10. júní 2017 og útgáfu handhafatryggingabréfs sama dag, til tryggingar 80.000.000 króna skuld Pressunar ehf. við leyfisbeiðanda, og hins vegar yfirtöku Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. á skuld Pressunar ehf. við leyfisbeiðanda samkvæmt lánssamningnum gerðum á grundvelli kaupsamnings Pressunar ehf. og Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. 5. september 2017.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um riftun fyrrgreindra ráðstafana á grundvelli 137. og 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá var fallist á kröfu gagnaðila um skyldu leyfisbeiðanda til að greiða honum 80.000.000 króna auk vaxta, sbr. 142. gr. sömu laga. Í dómi Landsréttar kom meðal annars fram að samkvæmt kaupsamningnum 5. september 2017 hefði Frjáls fjölmiðlun ehf. tekið að sér að greiða skuld Pressunnar ehf. við leyfisbeiðanda samkvæmt lánssamningi 10. júní sama ár að fjárhæð 80.000.000 króna. Ef til skuldskeytingarinnar hefði ekki komið hefði sá hluti kaupverðsins runnið til Pressunnar ehf. en ekki leyfisbeiðanda, nema ef kaupverðið hefði verið lækkað með samkomulagi aðila eða vegna lögmætra gagnkrafna Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. á hendur Pressunni ehf. Landsréttur taldi ósannað að Frjáls fjölmiðlun ehf. hefði átt slíkar gagnkröfur á hendur Pressunni ehf. og að leyfisbeiðandi yrði að bera hallann af þeim sönnunarskorti. Þeim málatilbúnaði leyfisbeiðanda að tjón gagnaðila hefði ekkert verið í raun var því hafnað.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem í því reyni á túlkun á hugtakinu „hagur“ í skilningi 142. gr. laga nr. 21/1991 og hvort riftunarþola sem ekki hafi hagnast á riftanlegum gerningi verði gert að greiða bætur samkvæmt ákvæðinu. Hann telur niðurstöðu Landsréttar bersýnilega ranga. Hann vísar einkum til aðila- og vitnaskýrslna fyrir dómi þar sem fram hafi komið að Frjáls fjölmiðlun ehf. hafi ekki greitt honum fjárhæðina, hann geri ekki kröfu um greiðslu úr hendi félagsins og að það hyggist hvorki greiða honum skuldina né telji sér það skylt. Í málinu horfi Landsréttur fram hjá því að yfirtaka Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. á skuld Pressunnar ehf. við leyfisbeiðanda hafi aldrei gengið eftir og hann hafi því þegar upp var staðið engan hag haft af hinum riftanlega gerningi í skilningi 142. gr. laga nr. 21/1991. Hann byggir jafnframt á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.

6. Gagnaðili leggst gegn beiðninni. Hann mótmælir því að sannað sé í málinu að krafa leyfisbeiðanda á hendur Frjálsri fjölmiðlun ehf. hafi aldrei verið greidd. Þá sé krafa leyfisbeiðanda samkvæmt lánssamningnum enn í fullu gildi og ófyrnd.

7. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 3. málsliðar 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.