Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-36

Hafnarfell hf. (Gestur Jónsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Fanney Rós Þorsteinsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Hlutafélag
  • Skipting félags
  • Skattur
  • Endurákvörðun
  • Stjórnsýsla
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 15. mars 2023 leitar Hafnarfell hf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 17. febrúar 2023 í máli nr. 456/2021: Hafnarfell hf. gegn íslenska ríkinu. Gagnaðili leggur í mat Hæstaréttar hvort orðið skuli við beiðninni en telur vafa leika á um að skilyrði fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt.

3. Mál þetta á rætur að rekja til þess að opinber gjöld leyfisbeiðanda voru endurákvörðuð gjaldárin 2008 til og með 2015 með úrskurðum ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar. Leyfisbeiðandi krafðist þess að úrskurðirnir yrðu felldir úr gildi.

4. Með dómi Landsréttar var niðurstaða héraðsdóms um að sýkna gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda staðfest. Fyrirtækinu Sjólaskipum hf., nú leyfisbeiðandi, var árið 2007 skipt upp í tvö félög. Við skiptinguna tók Katla Seafood ehf. við stórum hluta eigna og skulda félagsins. Í dómi Landsréttar kom fram að hluthafar í leyfisbeiðanda hefðu þegar selt hlutabréf sín í síðastgreinda félaginu til annarra áður en leyfisbeiðanda var skipt. Því hefðu hluthafarnir aldrei fengið hlutabréf í félaginu nema að nafni til. Taldi Landsréttur að ekki hefði verið fullnægt því frumskilyrði þágildandi 1. mgr. 52. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt að hluthafar leyfisbeiðanda fengju eingöngu hlutabréf í Kötlu Seafood ehf. sem gagngjald fyrir hlutafé sitt í leyfisbeiðanda. Með vísan til dóms Hæstaréttar 12. nóvember 2015 í máli nr. 217/2015 lagði Landsréttur til grundvallar að þegar eignum og skuldum félags sem til stendur að skipta sé í reynd ráðstafað til annarra en hluthafa og þau viðskipti eru um garð gengin áður en skiptin ganga í gegn að lögum verði litið á það sem óvenjulegan fjármálagerning sem gerður sé í því skyni að komast undan að greiða skatt, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003. Þá var ekki fallist á að gallar hefðu verið á rannsókn og málsmeðferð skattyfirvalda.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem grunnreglu 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003 hafi verið beitt í máli leyfisbeiðanda án heildstæðs mats á málsatvikum og umfjöllunar um tilgang skiptingar félagsins. Þá sé réttaróvissa til staðar um gildi og inntak skiptingar hlutafélags að mati leyfisbeiðanda. Hann telur málið varða mikilvæga hagsmuni sína enda hafi félaginu verið gert að greiða tekjuskatt af umtalsverðri fjárhæð án þess að það hefði fengið fjármunina. Loks telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé rangur að efni til enda séu málsatvik í dómi Hæstaréttar í máli nr. 217/2015 ekki sambærileg máli leyfisbeiðanda.

6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.