Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-160

Sjúkratryggingar Íslands (Erla S. Árnadóttir lögmaður)
gegn
A (Sveinbjörn Claessen lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skaðabætur
  • Miskabætur
  • Læknir
  • Stórkostlegt gáleysi
  • Lögskýring
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 28. desember 2023 leita Sjúkratryggingar Íslands leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 1. sama mánaðar í máli nr. 782/2021: A gegn Sjúkratryggingum Íslands. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að kröfu gagnaðila um miskabætur samkvæmt a-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 vegna aðgerðar á Landspítala. Undir rekstri málsins hafa aðilar gert sátt um aðrar kröfur gagnaðila tengdar aðgerðinni.

4. Með héraðsdómi var leyfisbeiðandi sýknaður af kröfu gagnaðila um miskabætur þar sem háttsemi læknis var ekki talin fela í sér stórkostlegt gáleysi. Með dómi Landsréttar var hins vegar fallist á kröfu gagnaðila um miskabætur. Í dóminum sagði að þar sem miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga væru ekki sérstaklega undanskildar í 5. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu yrði að skýra ákvæðið svo að það tæki til miskabóta á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga. Einnig væru uppfyllt saknæmisskilyrði þess ákvæðis.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að túlkun Landsréttar á ákvæði 5. gr. laga nr. 111/2000 sé röng og að ákvæðið eigi ekki að leiða til þess að greiða skuli skaðabætur vegna allra þeirra bótaflokka sem tilteknir eru í skaðabótalögum. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng meðal annars um mat á saknæmi. Jafnframt byggir leyfisbeiðandi á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni þar sem dómurinn óraskaður myndi fela í sér þá grundvallarbreytingu að starfsmönnum hans yrði fengið hlutverk rannsóknaraðila um sök heilbrigðisstarfsmanna. Að endingu vísar leyfisbeiðandi til þess að niðurstaða málsins hafi verulegt almennt gildi um afgreiðslu bóta úr sjúklingatryggingum.

6. Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft fordæmisgildi um greiðsluskyldu eftir lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.