Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-100
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Eignarréttur
- Jörð
- Afréttur
- Girðing
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 21. júlí 2023 leitar Borgarbyggð leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 23. júní 2023 í máli nr. 248/2022: Gunnar Jónsson gegn Borgarbyggð. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila lýtur að greiðsluþátttöku leyfisbeiðanda vegna kostnaðar gagnaðila sem eiganda jarðarinnar Króks í Norðurárdal í Borgarfirði af því að reisa girðingu.
4. Með héraðsdómi var leyfisbeiðandi sýknaður af kröfu gagnaðila meðal annars með vísan til þess að girðingin afmarkaði ekki heimaland og afrétt. Landsréttur taldi hins vegar að girðingin hefði verið sett upp milli afréttar og heimalands í eigu gagnaðila en skæri ekki sama afréttarland. Því tæki 1. mgr. 6. gr. girðingarlaga nr. 135/2001 til girðingarinnar. Jafnframt var ekki talið að ítaksréttindi þeirra sem ættu upprekstrar- og beitarrétt í landinu hindruðu að gagnaðili krefðist þess að girt yrði í samræmi við það ákvæði laganna. Leyfisbeiðandi var því dæmdur til að greiða gagnaðila fjárhæð sem svaraði til 4/5 hluta af kostnaði við að reisa girðinguna.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að túlkun Landsréttar á því hvað teljist heimaland og afréttur geti valdið mikilli óvissu til framtíðar. Niðurstaðan valdi einnig óvissu um hvaða girðingum sveitafélögum beri að viðhalda og hverjum ekki. Þá telur leyfisbeiðandi að dómurinn gangi þvert á dómafordæmi Hæstaréttar og sé því bersýnilega rangur.
6. Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft fordæmisgildi meðal annars um túlkun á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 135/2001. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.