Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-202

Hróbjartur Jónatansson (sjálfur)
gegn
íslenska ríkinu (Einar Karl Hallvarðsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Kröfugerð
  • Skaðabætur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 14. júlí 2021 leitar Hróbjartur Jónatansson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 21. júní sama ár í málinu nr. E-7989/2020: Hróbjartur Jónatansson gegn íslenska ríkinu á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

3. Leyfisbeiðandi er sjóðsfélagi í Frjálsa lífeyrissjóðnum og krafðist þess með réttarbeiðni sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur í ágúst 2018 að lífeyrissjóðnum yrði gert að afhenda honum tiltekin gögn, sem vörðuðu aðkomu lífeyrissjóðsins að fjárfestingum í félaginu United Silicon hf. og skyldum félögum, á grundvelli XII. kafla laga nr. 91/1991. Kröfu leyfisbeiðanda var vísað frá dómi með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 21. febrúar 2019. Niðurstaðan var meðal annars studd þeim rökum að hluti krafna leyfisbeiðanda varðaði einnig tiltekinn lögaðila án þess að honum hefði verið gefinn kostur á að taka til varna í málinu, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Leyfisbeiðandi kærði úrskurð héraðsdóms til Landsréttar og krafðist þess að hann yrði felldur úr gildi. Lífeyrissjóðurinn krafðist aftur á móti staðfestingar hins kærða úrskurðar. Með úrskurði 2. maí 2019 hafnaði Landsréttur kröfu leyfisbeiðanda um að lífeyrissjóðnum yrði gert að afhenda honum tilgreind gögn og gerði honum að greiða lífeyrissjóðnum málskostnað. Í úrskurði Landsréttar kom meðal annars fram að leyfisbeiðandi hefði ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að þau gögn sem hann krafðist að fá afhent gætu ráðið niðurstöðu um hvort mál yrði höfðað, sbr. síðari málslið 2. mgr. 78. gr. laga nr. 91/1991. Með ákvörðun Hæstaréttar 24. maí 2019 hafnaði rétturinn beiðni leyfisbeiðanda um kæruleyfi þar sem kæruheimild væri ekki til að dreifa.

4. Leyfisbeiðandi höfðaði í kjölfarið mál þetta og krafðist viðurkenningar á bótaskyldu gagnaðila þar sem hann hefði orðið fyrir tjóni sem hann ætti rétt á að fá bætt úr hendi gagnaðila, sbr. hina almennu skaðabótareglu og 53. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla. Leyfisbeiðandi byggði á því að embættisathafnir þriggja dómara við Landsrétt í fyrrgreindum úrskurði hefðu bersýnilega brotið gegn 111. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 163. gr. sömu laga, enda hefði ekki verið um að ræða atriði sem réttinum hefði borið án kröfu að gæta að. Rétturinn hefði farið út fyrir kröfur málsaðila og efnisleg afstaða verið tekin til dómkrafna sem leyfisbeiðandi hefði haft uppi í héraði og ekki hlotið efnislega meðferð þar. Í dómi héraðsdóms 21. júní 2021 var talið að Landsréttur hefði, eins og atvikum var háttað, verið heimilt að aðlaga kröfugerð gagnaðila í málinu án kröfu með vísan til 1. mgr. 111. gr., sbr. 1. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991. Gagnaðili var því sýknaður af kröfum leyfisbeiðanda.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að skilyrði fyrir áfrýjun héraðsdóms í málinu beint til Hæstaréttar á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 séu uppfyllt. Hann telur brýnt að fá endanlega niðurstöðu Hæstaréttar í málinu enda sé þörf á skjótri niðurstöðu réttarins þar sem svo virðist sem Landsréttur hafi beitt nefndri „aðlögun“ í fleiri málum. Þá telur leyfisbeiðandi ljóst að niðurstaða málsins yrði fordæmisgefandi og myndi hafa almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna og þá sérstaklega um gildissvið 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991. Þá bendir leyfisbeiðandi á að þar sem málið lúti að mögulegri saknæmri og ólögmætri beitingu Landsréttar á ákvæðum laga nr. 91/1991 sé fyrirsjáanlegt að skipa þyrfti Landsrétt ad hoc í málinu til að leysa úr sakarefninu og mæli því öll rök með því að Hæstiréttur leysi úr þessum ágreiningi með beinni áfrýjun héraðsdóms.

6. Gagnaðili vísar til þess að fordæmisgildi málsins yrði nokkurt ef fallist yrði á málatilbúnað leyfisbeiðanda en telur ólíklegt að þörf sé á skjótri úrlausn Hæstaréttar.

7. Að virtum gögnum málsins er ekki fullnægt því skilyrði 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 að þörf sé á að fá endanlega niðurstöðu Hæstaréttar í málinu með skjótum hætti. Þegar af þeirri ástæðu er beiðni um leyfi til að áfrýja héraðsdómi í málinu beint til Hæstaréttar hafnað.