Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-124
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Ráðningarsamningur
- Uppsögn
- Biðlaun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
2. Með beiðni 19. október 2022 leitar Íslandspóstur ohf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 7. sama mánaðar í máli nr. 296/2021: Pétur Einarsson gegn Íslandspósti ohf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Gagnaðili starfaði hjá Póst-og símamálastofnun til ársins 1997 er hann tók við starfi hjá Pósti og Síma hf. við hlutafélagavæðingu stofnunarinnar. Við skiptingu félagsins ári síðar varð hann starfsmaður leyfisbeiðanda. Gagnaðila var sagt upp störfum 16. ágúst 2019 vegna hagræðingaraðgerða. Hann höfðaði mál þetta til heimtu biðlauna eða bóta úr hendi leyfisbeiðanda vegna starfsloka sinna.
4. Í héraðsdómi var leyfisbeiðandi sýknaður af kröfu gagnaðila en Landsréttur komst að gagnstæðri niðurstöðu og féllst á hana. Í dómi réttarins kom fram að draga yrði þá ályktun að með 8. gr. laga nr. 103/1996 um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar hefði átt að tryggja að þeir starfsmenn stofnunarinnar, sem ráðnir yrðu til starfa hjá Pósti og síma hf., héldu áunnum réttindum sínum hjá hlutafélaginu, þar á meðal biðlaunaréttindum. Komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að gagnaðili ætti rétt á bótum á grundvelli ráðningarsamnings vegna starfsloka hans enda yrði að leggja til grundvallar að fullnægt væri skilyrðum bótaréttar samkvæmt 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í samræmi við ráðningarsamninginn og fyrrgreint lagaákvæði næmi bótaréttur hans þeim launum sem fylgdu starfi hans hjá leyfisbeiðanda í 12 mánuði eftir starfslok. Var því fallist á kröfu gagnaðila þess efnis.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um meðal annars skýringu 8. gr. laga nr. 103/1996 sem hafi verulega almenna þýðingu við skýringu sambærilegra lagaákvæða í öðrum lögum um hlutafélagavæðingu ríkisstofnana. Einnig þurfi að meta áhrif þess að lögin voru felld úr gildi. Jafnframt reyni á þýðingu og fordæmisgildi dóma Hæstaréttar 12. febrúar 2004 í málum nr. 337 og 338/2003. Til stuðnings því að framangreindu skilyrði sé fullnægt vísar leyfisbeiðandi enn fremur til þess að í málinu reyni á skýringu 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 70/1996 sem hafi fordæmisgildi í ýmsu tilliti. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að málið varði mikilvæga hagsmuni sína og vísar því til stuðnings meðal annars til þess að níu fyrrverandi starfsmenn hans hafi höfðað mál á sambærilegum grunni. Loks telur leyfisbeiðandi dóm Landsréttar vera bersýnilega rangan að efni til enda gangi hann gegn viðurkenndum skýringarsjónarmiðum og almennum reglum um biðlaun.
6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.