Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-109

Íslenska ríkið (Óskar Thorarensen lögmaður)
gegn
Eyjólfi Orra Sverrissyni (Jón Sigurðsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Viðurkenningarkrafa
  • EES-samningurinn
  • Ráðgefandi álit
  • Vinnutími
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 11. október 2023 leitar íslenska ríkið leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 15. september sama ár í máli nr. 197/2022: Íslenska ríkið gegn Eyjólfi Orra Sverrissyni og gagnsök. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort tilteknar stundir, utan dagvinnutíma, sem gagnaðili varði í ferðir erlendis vegna starfa sinna fyrir Samgöngustofu teljist vinnutími í skilningi 1. töluliðar 52. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

4. Með héraðsdómi var fallist á dómkröfu gagnaðila en þó þannig að dreginn var frá sá tími sem hann hefði ella varið í daglegar ferðir til og frá reglulegri starfsstöð sinni. Landsréttur taldi að leyfisbeiðandi hefði ekki haldið fram sem málsástæðu fyrrgreindum frádrætti og því ekki tilefni til að draga þann tíma frá dómkröfum hans. Að því virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms var fallist á dómkröfur gagnaðila. Undir rekstri málsins var aflað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um túlkun vinnutímahugtaks 2. gr. tilskipunar 2003/88/EB. Í héraðsdómi sem staðfestur var að þessu leyti með hinum áfrýjaða dómi kom fram að gagnaðili hefði verið að sinna skyldum í þágu vinnuveitanda síns þegar hann fór í vinnuferðir erlendis utan hefðbundins vinnutíma. Í öllum tilvikum hefði verið um að ræða verulegan ferðatíma og ferðalög sem tengdust ekki hefðbundinni starfsstöð gagnaðila. Þá hefði hann einnig verið við störf og til taks fyrir vinnuveitanda. Töldust nánar tilgreindar stundir sem gagnaðili varði í ferðir á vegum Samgöngustofu því vinnutími í skilningi 1. töluliðar 52. gr. laga nr. 46/1980.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Niðurstaða Landsréttar breyti áratugalangri framkvæmd við ákvörðun vinnutíma og muni að óbreyttu leiða til kerfisbreytinga á vinnumarkaði starfsfólks sem ferðast til annars áfangastaðar en hefðbundinnar starfstöðvar. Um fordæmisgefandi mál sé að ræða sem hafi almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna og fyrir samfélagið í heild sinni. Þá telur leyfisbeiðandi vafa leika á því hvort dómur Landsréttar sé réttur.

6. Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft fordæmisgildi meðal annars um túlkun á hugtakinu vinnutími í skilningi 1. töluliðar 52. gr. laga nr. 46/1980 og þýðingu vinnutímahugtaks 2. gr. tilskipunar 2003/88/EB í því sambandi. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.