Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-75

Þrotabú ACE Handling ehf. (Sveinn Andri Sveinsson lögmaður)
gegn
Global Fuel Iceland ehf. (Ólafur Eiríksson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Riftun
  • Stefnubirting
  • Málshöfðunarfrestur
  • Kæruheimild
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 23. maí 2022 leitar þrotabú ACE Handling ehf. leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 10. sama mánaðar í máli nr. 144/2022: Þrotabú ACE Handling ehf. gegn Global Fuel Iceland ehf. Um kæruheimild er vísað til 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að rift verði greiðslu ACE FBO ehf. til gagnaðila að fjárhæð 11.300 evrur sem innt var af hendi 13. september 2019. Jafnframt er krafist greiðslu á sömu fjárhæð með nánar tilgreindum vöxtum. Leyfisbeiðandi rekur málið í eigin nafn sem kröfuhafi í þrotbúinu til hagsbóta fyrir búið, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991.

4. Með úrskurði Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að vísa málinu frá dómi. Landsréttur vísaði til þess að kröfulýsingarfresti í þrotabúi ACE FBO ehf. hefði lokið 26. desember 2020. Ljóst væri að meira en sex mánuðir hefðu liðið frá lokum þess frests og þar til leyfisbeiðandi höfðaði málið 16. september 2021. Gagnaðili hefði hafnað kröfu leyfisbeiðanda með bréfi 24. febrúar 2021 og hefði þess verið kostur að krefjast strax í kjölfarið riftunar greiðslunnar. Þá rakti Landsréttur að skýrlega kæmi fram í 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 að sex mánaða málshöfðunarfrestur ákvæðisins miðaðist við það tímamark. Var því staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að frestur samkvæmt ákvæðinu til höfðunar málsins hafi verið liðinn er það var þingfest 16. september 2021.

5. Leyfisbeiðandi vísar til þess að stefna í málinu hafi verið birt 25. júní 2021 fyrir einstaklingi sem var þá bæði varamaður í stjórn og starfsmaður gagnaðila sem og prókúruhafi félagsins. Málið hafi því verið höfðað innan sex mánaða frá lokum kröfulýsingarfrests. Þá telur leyfisbeiðandi að frestur til að höfða riftunarmál hafi ekki byrjað að líða fyrr en hann átti þess fyrst kost að höfða málið, eða 1. júní 2021. Því hafi málshöfðunarfrestur 148. gr. laga nr. 21/1991 ekki verið liðinn þegar málið var höfðað.

6. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt án leyfis að kæra til Hæstaréttar úrskurð Landsréttar ef þar hefur verið mælt fyrir um frávísun máls frá héraðsdómi eða Landsrétti ef ekki er um að ræða staðfestingu á slíkri dómsathöfn héraðsdóms. Getur úrskurður Landsréttar samkvæmt því sætt kæru til Hæstaréttar ef þar hefur verið tekin ákvörðun um að vísa máli frá héraðsdómi sem ekki hefur fyrr verið gert. Á hinn bóginn sætir úrskurður Landsréttar ekki kæru til Hæstaréttar eftir framangreindri heimild ef þar hefur verið staðfestur úrskurður héraðsdóms um frávísun svo sem hér á við.

7. Samkvæmt 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 sem leyfisbeiðandi vísar til í umsókn sinni er unnt að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurði Landsréttar þegar svo er fyrir mælt í öðrum lögum. Hvorki er í lögum nr. 21/1991 né öðrum lögum kveðið á um heimild til að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar þar sem staðfest er niðurstaða héraðsdóms um að vísa máli að hluta eða öllu leyti frá dómi, sbr. meðal annars ákvarðanir Hæstaréttar 27. febrúar 2019 í máli nr. 2019-77, 21. maí 2019 í máli nr. 2019-155 og 17. maí 2022 í máli nr. 2022-47. Þegar af þessari ástæðu er beiðni um kæruleyfi hafnað.