Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-145

Vörður tryggingar hf. (Magnús Hrafn Magnússon lögmaður)
gegn
A (Ómar R. Valdimarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Viðurkenningarkrafa
  • Skaðabætur
  • Umferðarslys
  • Sönnun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson.

2. Með beiðni 24. nóvember 2022 leitar Vörður tryggingar hf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 28. október sama ár í máli nr. 397/2021: Vörður tryggingar gegn A á grundvelli 1. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um viðurkenningu á bótaskyldu leyfisbeiðanda úr slysatryggingu ökumanns bifreiðar vegna líkamstjóns sem gagnaðili telur sig hafa orðið fyrir í umferðarslysi árið 2017. Í málinu liggur fyrir að leyfisbeiðandi samþykkti upphaflega bótaskyldu úr slysatryggingu ökumanns og eiganda en hafnaði henni síðar. Ágreiningur aðila snýr einkum að því hvort sönnun hafi tekist um að slysið hafi átt sér stað.

4. Héraðsdómur taldi sannað að gagnaðili hefði lent í slysinu á umræddum tíma og orðið fyrir líkamstjóni. Þá var talið ósannað að stórkostlegt gáleysi eða önnur háttsemi hans gætu leitt til skerðingar á bótarétti. Í samræmi við það viðurkenndi dómurinn rétt gagnaðila til greiðslu bóta úr slysatryggingu ökumanns hjá leyfisbeiðanda vegna umferðarslyssins. Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu en í dómi réttarins var lagt til grundvallar að sú vanræksla gagnaðila að sinna ekki upplýsingaskyldu sinni til lögreglu hefði ekki skipt máli því sú vanræksla hefði legið fyrir þegar leyfisbeiðandi samþykkti upphaflega bótaskyldu. Hefði leyfisbeiðandi því þurft að færa sönnur fyrir því að þær forsendur sem lagðar voru til grundvallar samþykki á bótaskyldu hafi brostið í ljósi upplýsinga sem ekki lágu þegar fyrir. Landsréttur taldi einnig að leyfisbeiðanda hefði ekki tekist sönnun þess að gagnaðili hafi með stórkostlegu gáleysi eða annarri háttsemi sinni skert rétt sinn til bóta. Var dómur héraðsdóms því staðfestur.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Í því sambandi vísar hann til þess að málið geti haft verulegt fordæmisgildi varðandi möguleika tryggingafélaga til þess að breyta afstöðu sinni til bótaskyldu ef gagnaöflun leiðir til gruns um tryggingasvik. Auk þess hafi þýðingu að fá úr því skorið hvernig sönnunarbyrði skuli háttað við þær aðstæður sem uppi eru í málinu. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að málið varði mikilvæga hagsmuni sína. Loks byggir hann á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, einkum um heildarmat á sönnunargögnum og telur að þau gögn nægi ekki til sönnunar á atvikum. Engin vitni hafi verið að atvikinu, bifreiðinni hafi verið fargað á sama tíma og málið hafi verið tilkynnt tryggingafélaginu og engar nothæfar ljósmyndir hafi verið teknar.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.