Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-125

Isavia ohf. og Vörður tryggingar hf. (Magnús Hrafn Magnússon lögmaður)
gegn
A (Vilhjálmur Þ. Á. Vilhjálmsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Vátryggingarsamningur
  • Viðurkenningarkrafa
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 24. október 2022 leita Vörður tryggingar hf. og Isavia ohf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 29. september sama ár í máli nr. 252/2021: A gegn Isavia ohf. og Verði tryggingum hf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um viðurkenningu á bótaskyldu leyfisbeiðandans Isavia ohf. og bótarétti úr frjálsri ábyrgðartryggingu hjá leyfisbeiðandanum Verði tryggingum hf. vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir þegar hann þreytti þrekpróf í starfi sínu sem slökkviliðsmaður hjá Isavia ohf.

4. Héraðsdómur sýknaði leyfisbeiðendur en Landsréttur tók kröfu gagnaðila á hendur þeim til greina. Gagnaðili reisti viðurkenningakröfu sína meðal annars á því að ekki hefði verið heimilt að láta hann þreyta þrekprófið þar sem meira en sex mánuðir hefðu verið liðnir frá árlegri læknisskoðun hans. Landsréttur vísaði til þess að í rekstrarhandbók Isavia ohf. væri skýrlega mælt fyrir um að starfsmenn sem sinntu björgunar- og slökkvistörfum skyldu ljúka þrekprófi innan sex mánaða frá læknisskoðun. Við þrekprófið hefði verið brotið gegn þessari reglu. Taldi Landsréttur að miðað við lýsingar í sjúkraskýrslu heimilislæknis á þróun mjóbaksverkja gagnaðila árið sem slysið átti sér stað væri ekki hægt að útiloka að við læknisskoðun hefði komið í ljós að áfrýjandi væri ekki fær um að taka prófið. Yrði leyfisbeiðandinn Isavia ohf. að bera hallann af því að gagnaðili hefði verið skyldaður til að taka þrekpróf án þess að ný læknisskoðun færi fram og sú vanræksla metin til sakar.

5. Leyfisbeiðendur byggja á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Vísa þeir til þess að niðurstaða í því kunni að hafa fordæmisgildi varðandi aðferð við sakarmat þegar um er að ræða brot á innri viðmiðunarreglum og beitingu reglufests saknæmis í þeim tilvikum. Málið hafi jafnframt fordæmisgildi varðandi mat á orsakatengslum þegar reglufestu saknæmi sé beitt enda hafi sönnunarbyrði um orsakatengsl milli hinnar saknæmu háttsemi og tjónsatburðar verið snúið við. Þá byggja leyfisbeiðendur á því að málið varði mikilvæga hagsmuni þeirra. Loks byggja þeir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur þar sem skorti á rökstuðning fyrir því að beita skuli reglufestu saknæmi á grundvelli innri viðmiðunarreglna fyrirtækis.

6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.