Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-211

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Einar Hugi Bjarnason lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Líkamsárás
  • Barnaverndarlagabrot
  • Refsiákvörðun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 28. júní 2021 leitar X leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 4. júní sama ár í málinu nr. 126/2020: Ákæruvaldið gegn X á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið telur ekki efni til að fallast á beiðnina.

3. Með dómi Landsréttar var ákærða sakfelld fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 svo og 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 með því að hafa á heimili sínu veist með ofbeldi að syni sínum með nánar tilgreindum hætti. Refsing ákærðu var ákveðin fangelsi í 30 daga en fullnustu hennar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Í héraði hafði leyfisbeiðandi verið sýknuð af kröfum ákæruvaldsins.

4. Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt. Hún byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til auk þess sem málið lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu. Leyfisbeiðandi vísar meðal annars til þess að Landsréttur hafi í dómi sínum beitt aðferðum við sönnunarmat sem ekki eigi sér stoð í réttarframkvæmd eða reglum sakamálaréttarfars. Rétturinn hafi ekki lagt sjálfstætt mat á framburð leyfisbeiðanda og refsiáfall dæmt gegn neitun hennar og án þess að framburður brotaþola hafi haft stoð í skýrslum annarra vitna eða í hlutrænum sönnunargögnum. Þá telur leyfisbeiðandi að það sé stór ágalli á dómi Landsréttar að ekkert hafi verið vikið að saknæmisstigi þrátt fyrir að staðfest hafi verið með mati dómkvadds manns að hún hafi á verknaðarstundu verið undir miklu álagi og haldin langvarandi streitu, auk þess sem hún hafi glímt við aukaverkanir lyfja sem henni hafi verið nauðsynlegt að taka. Leyfisbeiðandi hafi því ekki haft ásetning til að beita son sinn ofbeldi umrætt sinn. Þá hafi Landsréttur einnig í niðurstöðu sinni farið gegn áliti dómkvadds geðlæknis sem komist hafi að þeirri niðurstöðu að refsing gæti haft alvarleg áhrif á geðheilsu leyfisbeiðanda, sbr. 16. gr. almennra hegningarlaga. Að lokum telur leyfisbeiðandi að skilyrði 4. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt þar sem hún hafi verið sýknuð af ákæruefni í héraðsdómi en sakfelld í Landsrétti.

5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt fyrst og fremst á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar leyfisbeiðanda og brotaþola, en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Af framangreindu er ljóst að áfrýjun til réttarins mun ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar, sbr. lokamálslið 4. mgr. sömu greinar. Beiðninni er því hafnað.