Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-155

Íslenska ríkið (Eiríkur Áki Eggertsson lögmaður)
gegn
A (Jón Sigurðsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Embættismenn
  • Uppsögn
  • Niðurlagning stöðu
  • Stjórnsýsla
  • Skaðabætur
  • Miskabætur
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 20. desember 2023 leitar íslenska ríkið leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 24. nóvember sama ár í máli nr. 442/2022: A gegn íslenska ríkinu. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að lögmæti ákvörðunar ráðherra um að leggja niður embætti það sem gagnaðili gegndi í ráðuneyti. Gagnaðili telur að sér hafi verið vikið úr starfi með ólögmætum hætti vegna ávirðinga tengdum tilteknum embættisfærslum sínum.

4. Með héraðsdómi var leyfisbeiðandi sýknaður af kröfum gagnaðila. Með dómi Landsréttar var hins vegar fallist á bótaskyldu leyfisbeiðanda vegna ólögmætrar frávikningar gagnaðila úr embætti. Taldi Landsréttur að leyfisbeiðanda hefði ekki tekist að sanna að starfslok gagnaðila hefðu verið ákveðin 24. júní 2020 og lagði til grundvallar að ávirðingar gagnaðila hefðu ráðið því að ákveðið hefði verið 31. ágúst sama ár að leggja niður embætti hans, en gagnaðili hafði verið sendur í leyfi 14. júlí það ár. Í dóminum var rakið að við þessar aðstæður hefði ráðherra borið að fara með málið í samræmi við 26. til 28. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þá taldi Landsréttur að ákvörðun ráðherra um að leggja niður embætti gagnaðila með vísan til 34. gr. sömu laga hefði verið ósamrýmanleg þeirri meginreglu stjórnsýsluréttar að óheimilt væri að undirbúningur og úrlausn máls miðuðu að því að komast hjá að fylgja lögboðinni málsmeðferð sem ætlað væri að tryggja réttaröryggi aðila. Ákvörðun ráðherra hefði því verið ólögmæt enda ekki byggð á málefnalegum sjónarmiðum.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi fordæmisgildi og snúi að mikilsverðum hagsmunum hans þar sem það varði réttarstöðu skrifstofustjóra sem embættismanna vegna skipulagsbreytinga innan ráðuneytis. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng þar sem í dóminum sé blandað saman ákvörðun um niðurlagningu embættisins og hvort bjóða skyldi gagnaðila nýtt starf í ráðuneytinu. Auk þess vísar leyfisbeiðandi til forsendna og niðurstöðu héraðsdóms í málinu.

6. Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft fordæmisgildi meðal annars um réttarstöðu ríkisstarfsmanna við niðurlagningu stöðu vegna skipulagsbreytinga.