Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-153

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Þresti Thorarensen (Björgvin Þorsteinsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Kynferðisbrot
  • Nauðgun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 5. maí 2021 leitar Þröstur Thorarensen leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 26. mars sama ár í málinu nr. 464/2020: Ákæruvaldið gegn Þresti Thorarensen á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála en dómurinn var birtur honum 9. apríl sama ár. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir brot gegn 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa haft samræði við brotaþola, sem lá sofandi í rúmi sínu og gat ekki spornað við verknaði hans sökum svefndrunga og ölvunar, og eftir að hún vaknaði beitt hana ofbeldi og ólögmætri nauðung og án samþykkis haft við hana endaþarmsmök. Refsing leyfisbeiðanda var ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði en auk þess var honum gert að greiða brotaþola miskabætur.

4. Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt. Hann byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni til. Jafnframt hafi málið verulega almenna þýðingu um sönnunarfærslu í kynferðisbrotamálum. Hann vísar einkum til þess að sönnunarmat Landsréttar gangi í berhögg við 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og meginreglur sakamálaréttarfars um sönnun, sbr. 108. og 109. gr. laga nr. 88/2008. Dómafordæmi beri með sér að þegar engum sýnilegum sönnunargögnum sé til að dreifa verði sakfelling ekki byggð á framburði brotaþola sem einungis fái stuðning í framburði vitna sem byggi á frásögn brotaþola á atvikum. Þá skorti verulega á að öllum atriðum sem máli skipta við heildarmat á sök séu gerð skil í dómi Landsréttar, sbr. f-lið 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 3. og 4. mgr. 207. gr. sömu laga. Í dóminum sé þannig engin grein gerð fyrir því hvernig saknæmisskilyrðum sé fullnægt í málinu. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að verulegir annmarkar hafi verið á rannsókn málsins og ákvörðun um saksókn.

5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu leyfisbeiðanda byggir að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.