Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-305

A (Magnús Baldursson lögmaður)
gegn
barnaverndarnefnd Reykjavíkur (Ebba Schram lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Börn
  • Forsjársvipting
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 3. desember 2021 leitar A leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 5. nóvember sama ár í máli nr. 452/2021: A gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni en telur ekki önnur rök hníga til þess að hún verði samþykkt en eðli hagsmuna leyfisbeiðanda.

3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um að leyfisbeiðandi verði svipt forsjá sonar síns á grundvelli a- og d- liða 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Samhliða málinu var rekið mál um kröfu gagnaðila um að leyfisbeiðandi yrði svipt forsjá dóttur sinnar. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að fallast á fyrrnefnda kröfu gagnaðila. Dómurinn leit meðal annars til matsgerða um forsjárhæfni og geðheilbrigði hennar.

4. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi og varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Þá hafi málsmeðferð fyrir héraðsdómi verið stórlega ábótavant þar sem meðdómari hafi ekki gætt hlutleysis og spurt vitni leiðandi spurninga. Dómur Landsréttar sé jafnframt bersýnilega rangur að efni til þar sem hann byggist á röngum staðhæfingum um óboðað eftirlit og gilda meðferðaráætlun, auk þess sem fyrrnefndar matsgerðir hafi verið haldnar ágöllum. Loks telur leyfisbeiðandi að annars vegar hafi skort á að meðalhófs hafi verið gætt og hins vegar að lagt hafi verið mat á málið óháð máli gagnaðila vegna eldra barns síns.

5. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að leyfisbeiðandi hafi sérstaklega mikilvæga hagsmuni af áfrýjun eins og málið liggur fyrir, sbr. 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferðinni hafi verið stórlega ábótavant eða að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Í því tilliti skal tekið fram að ekki verður talið að sérfróður meðdómsmaður í héraði hafi með spurningum til vitna við aðalmeðferð málsins látið í ljós afstöðu til sakarefnisins þannig að hæfi hans til meðferðar þess verði með réttu dregið í efa. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.