Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-164
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Miskabætur
- Starfsleyfi
- Reglugerð
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 16. desember 2022 leitar Matthías Bjarnason leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 18. nóvember sama ár í máli nr. 619/2021: Matthías Bjarnason gegn íslenska ríkinu. Gagnaðili telur vafa leika á um að skilyrði nefnds lagaákvæðis um veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt.
3. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort leyfisbeiðandi eigi rétt til miskabóta úr hendi gagnaðila vegna synjunar Samgöngustofu, sem staðfest var af innanríkisráðuneytinu, á umsókn hans um útgáfu leyfis til leiðsögu- og yfirborðsköfunar fyrir ferðamenn. Synjun stofnunarinnar var reist á því að hann hefði ekki uppfyllt skilyrði tilgreinds reglugerðarákvæðis sem óumdeilt er í málinu að hefði skort lagastoð. Leyfisbeiðandi byggir á því að með því að leggja til grundvallar að reglugerðin hefði fullnægjandi lagastoð hefði starfsfólk stofnunarinnar valdið honum miska með ólögmætri meingerð í skilningi b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
4. Héraðsdómur sýknaði gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Í dóminum kom fram að ekki yrði séð að ástæða þess að leyfið var ekki veitt hefði tengst persónu leyfisbeiðanda eða að starfsmenn viðkomandi stjórnvalda hefðu af verulegu gáleysi vegið að æru hans með þeim hætti að í því fælist meingerð í skilningi b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Þá uppfylltu þau mistök sem starfsfólk Samgöngustofu og innanríkisráðuneytisins gerðu þegar þau lögðu til grundvallar að ákvæði reglugerðarinnar hefði fullnægjandi lagastoð ekki þá auknu saknæmiskröfu sem gerður væri áskilnaður um til þess að miskabætur yrðu dæmdar samkvæmt ákvæðinu. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Landsréttur rakti að úrslit málsins réðust af því hvort þau mistök sem starfsfólk gagnaðila gerði, þegar það lagði til grundvallar að ákvæði reglugerðarinnar hefði fullnægjandi lagastoð, gæti talist ólögmæt meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu áfrýjanda í skilningi b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Með vísan til forsendna héraðsdóms var fyrrgreind niðurstaða hans um það efni staðfest.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málsmeðferð fyrir héraðsdómi og Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant auk þess sem dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur. Því til stuðnings tilgreinir hann meðal annars að forsendur fyrir niðurstöðum bæði héraðsdóms og Landsréttar séu rangar og að misskilnings hafi gætt um hvort hann hefði raunverulega haft tilgreind réttindi sem kafari.
6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant né að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Beiðninni er því hafnað.