Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-54

A (Lára V. Júlíusdóttir lögmaður)
gegn
B og íslenska ríkinu (Áslaug Árnadóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fyrning
  • Uppsögn
  • Skaðabætur
  • Miskabætur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Björg Thorarensen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 11. apríl 2022 leitar A leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 18. mars sama ár í máli nr. 334/2021: A gegn B og íslenska ríkinu á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfum leyfisbeiðanda um annars vegar greiðslu skaðabóta vegna fjárhagslegs tjóns sem leiddi af uppsögn hans úr starfi hjá gagnaðila B og hins vegar miskabóta vegna uppsagnarinnar og aðgerða lögreglu í tilefni af rannsókn á ætluðu broti hans í starfi.

4. Í dómi Landsréttur var rakið að kröfu leyfisbeiðanda um miskabætur hefði verið vísað frá héraðsdómi án kröfu. Leyfisbeiðandi hefði hins vegar ekki kært til Landsréttar ákvæði héraðsdóms um frávísun eftir reglum XXIV. kafla laga nr. 91/1991. Þar sem þessa var ekki gætt gæti ákvæði héraðsdóms um frávísun ekki sætt endurskoðun Landsréttar. Þá var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu af kröfu um greiðslu skaðabóta vegna fjárhagslegs tjóns þar sem krafan hefði verið fallin niður fyrir fyrningu þegar málið var höfðað í héraði.

5. Leyfisbeiðandi afmarkar beiðni sína með þeim hætti að óskað sé endurskoðunar á niðurstöðu Landsréttar um sýknu af kröfu um greiðslu skaðabóta vegna fjárhagslegs tjóns. Byggir hann á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um túlkun á ákvæðum laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, einkum 9. og 10. gr. Vísar hann meðal annars til þess að samkvæmt niðurstöðu héraðsdóms, sem Landsréttur staðfesti, hefði þurft að höfða mál til heimtu skaðabóta vegna uppsagnarinnar áður en rannsókn á tildrögum hennar var lokið en á þeim tímapunkti hefði málið verið ótækt til efnislegrar umfjöllunar dómstóla. Með slíkri niðurstöðu sé vinnuveitandi hjá hinu opinbera að hagnast á því að hafa sagt starfsmanni upp störfum án þess að fullnægjandi rannsókn hafi farið fram í aðdraganda ákvörðunar. Þá vísar leyfisbeiðandi til þess að með því að neita honum um efnislega meðferð bótakröfunnar hafi aðgangur hans að dómstólum verið takmarkaður samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar.

6. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess geti haft verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Beiðninni er því hafnað.