Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-91

K2 Agency Limited (Jón Gunnar Ásbjörnsson lögmaður)
gegn
Live events ehf., L Events ehf., Lifandi viðburðum ehf. og Guðmundi Hreiðarssyni Viborg (Gestur Gunnarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Kröfuréttindi
  • Ábyrgðaryfirlýsing
  • Loforð
  • Skaðabætur
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 24. júní 2022 leitar K2 Agency Limited leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 27. maí 2022 í máli nr. 191/2021: Live events ehf., L Events ehf., Lifandi Viðburðir ehf. og Guðmundur Hreiðarsson Viborg gegn K2 Agency Limited á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda, umboðsfyrirtækis hljómsveitarinnar Slayer, á hendur gagnaðilum um greiðslu skuldar vegna tónlistarflutnings hljómsveitarinnar á tónlistarhátíðinni Secret Solstice sumarið 2018. Leyfisbeiðandi hafði áður höfðað mál til heimtu kröfunnar á hendur félaginu Solstice Productions ehf. sem hélt tónlistarhátíðina og fyrirsvarsmanni þess félags. Bú félagsins var síðan tekið til gjaldþrotaskipta og lauk skiptum á því án þess að krafan fengist greidd en fyrirsvarsmanninum var gert að greiða kröfuna á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingar.

4. Með dómi héraðsdóms var fallist á kröfu leyfisbeiðanda en með dómi Landsréttar var félagið Live events ehf. sýknað og aðrir gagnaðilar sýknaðir að svo stöddu. Leyfisbeiðandi taldi Live events ehf. greiðsluskylt á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingar framkvæmdastjóra félagsins í fjölmiðlum. Krafa leyfisbeiðanda gagnvart L Events ehf., Lifandi Viðburðum ehf. og Guðmundi Hreiðarssyni Viborg byggði á því að verðmætum hefði með saknæmum og ólögmætum hætti verið ráðstafað frá Solstice Productions ehf. áður en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta. Til vara byggði leyfisbeiðandi á því að L Events ehf., Lifandi Viðburðir ehf. og Guðmundur Hreiðarsson Viborg væru bundin af ábyrgðaryfirlýsingu framkvæmdastjóra Live events ehf. Landsréttur féllst ekki á að framkvæmdastjóri Live events ehf. hefði gefið skuldbindandi ábyrgðaryfirlýsingu um að félagið myndi greiða fjárkröfuna og var félagið því sýknað. Að því er varðaði kröfu leyfisbeiðanda á hendur öðrum gagnaðilum vísaði Landsréttur til þess að fyrir lægi endanlegur dómur þar sem fyrirsvarsmanni Solstice Productions ehf. hefði verið gert að greiða fjárkröfuna sem málið varðaði og leyfisbeiðandi hefði fengið löggeymslu í íbúð hans og krafist nauðungarsölu á íbúðinni. Væri því ekki fullreynt hvort krafa leyfisbeiðanda fengist greidd úr hendi fyrirsvarsmannsins og því ókominn sá tími sem L Events ehf., Lifandi Viðburðir ehf. og Guðmundur Hreiðarsson Viborg yrðu krafðir um efndir hennar.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um skýringu og mat á skuldbindingargildi loforða sem beint er til tiltekins hóps manna með almennri yfirlýsingu í fjölmiðlum. Hann byggir jafnframt á því að málið hafi verulegt almennt gildi varðandi skýringu og beitingu reglna hlutafélagaréttar um skaðabætur og samsömun. Þá telur hann málið hafa almennt gildi um skýringu á 1. og 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991. Leyfisbeiðandi byggir að auki á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Í því efni vísar hann til þess að þar sem um kröfu um skaðabætur utan samninga sé að ræða hafi krafan orðið gjaldkræf þegar hið bótaskylda atvik olli tjóni og því geti ekki verið ókominn sá tími sem gagnaðilar verði krafðir um greiðslu hennar.

6. Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í málinu geti haft fordæmisgildi um stofnun kröfu og greiðsluskyldu í tilviki fleiri skuldara. Beiðnin er því samþykkt.