Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-76

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Jerzy Wlodzimierz Lubaszka (Bjarni G. Björgvinsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fíkniefnalagabrot
  • Sönnun
  • Milliliðalaus málsmeðferð
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 2. maí 2022 leitar Jerzy Wlodzimierz Lubaszka leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 25. mars 2022 í máli nr. 723/2018: Ákæruvaldið gegn Jerzy Wlodzimierz Lubaszka á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Skipuðum verjanda leyfisbeiðanda var birtur dómurinn 7. apríl 2022. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Með dómi Landsréttar 20. desember 2019 í máli nr. 723/2018 var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa átt þátt í innflutningi á 11.550 millilítrum af vökva sem innihélt amfetamínbasa til söludreifingar og í ágóðaskyni og dæmdur til fimm ára fangelsisvistar. Héraðsdómur hafði með dómi 25. apríl 2018 sýknað leyfisbeiðanda af öllum kröfum ákæruvaldsins en sakfellt meðákærða sem áfrýjaði ekki dóminum. Með ákvörðun Hæstaréttar 30. október 2020 í máli nr. 2020-237 var leyfisbeiðanda veitt áfrýjunarleyfi vegna dóms Landsréttar. Með dómi Hæstaréttar 18. mars 2021 í máli nr. 34/2020 var dómur Landsréttar ómerktur og málinu vísað aftur til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný. Eftir endurtekna meðferð málsins fyrir Landsrétti var leyfisbeiðandi sakfelldur með dómi réttarins 25. mars 2022 og dæmdur til fjögurra ára fangelsisvistar að frádreginni gæsluvarðhaldsvist.

4. Í dómi Landsréttar kom fram að framburður leyfisbeiðanda væri reikull um ýmis atriði. Í ljósi allra atvika var framburður hans um að honum hefði verið alls ókunnugt um raunverulegan tilgang farar hingað til lands og ekkert vitað um hið mikla magn fíkniefna í eldsneytistanki bifreiðar talinn ótrúverðugur. Taldi Landsréttur honum ekki hafa getað dulist að fíkniefni væru falin í bifreiðinni. Hann hefði þrátt fyrir þá vitneskju ákveðið að taka að sér akstur hennar til landsins og þar með innflutninginn á fíkniefnum sem í henni voru falin. Með vísan til þess og á grundvelli heildstæðs mats á framburði leyfisbeiðanda og þeirra atvika málsins sem sönnuð væru, svo og ótrúverðugra og misvísandi skýringa meðákærða og leyfisbeiðanda á tilgangi ferðar þeirra til landsins, taldi Landsréttur hafið yfir vafa að leyfisbeiðandi hefði staðið að þeim innflutningi fíkniefna sem honum væri gefinn að sök í ákæru. Var leyfisbeiðandi því sakfelldur fyrir þá háttsemi. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að gögn málsins bæru ekki vott um ríkan þátt hans í undirbúningi ferðarinnar til landsins og þáttur hans í brotinu ekki metinn til jafns við meðákærða í héraði. Þá var tekið tillit til þess dráttar sem orðið hefði á rekstri málsins auk þess sem leyfisbeiðandi hefði ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið lúti að atriðum sem hafa verulega almenna þýðingu en það varði meginregluna um milliliðalausa málsmeðferð og kunni að vera fordæmisgefandi um hvenær það geti talist nægja að spilaðar séu upptökur frá aðalmeðferð í héraði fyrir Landsrétti. Málið varði jafnframt grundvallaratriði sönnunar í sakamálum og rannsóknarskyldu lögreglu. Leyfisbeiðandi telur jafnframt að málsmeðferð fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant en Landsréttur hafi kveðið upp að mestu leyti samhljóða dóm og fyrri dóm réttarins sem Hæstiréttur ómerkti með dómi í máli nr. 34/2020. Vísar hann einkum til þess að meðákærði sem sakfelldur var með dómi héraðsdóms kom ekki fyrir Landsrétt og því hafi ekki farið fram beint mat á sönnunargögnum fyrir Landsrétti auk þess sem meðákærði hafi haft aðra réttarstöðu fyrir Landsrétti en í héraði og hjá lögreglu. Þá hafi það verið í andstöðu við sönnunarreglur laga nr. 88/2008 að vísa til og byggja á vitnisburði lögreglumanns sem ók bifreiðinni frá Seyðisfirði til Egilsstaða um hljóð í bifreiðinni en aðstæður í bílnum hafi verið ósambærilegar við aðstæður þegar leyfisbeiðandi ók bílnum.

6. Við aðalmeðferð málsins í Landsrétti gáfu leyfisbeiðandi og lögreglumaður viðbótarskýrslur í gegnum fjarfundabúnað. Þá voru upptökur úr héraðsdómi af framburði leyfisbeiðanda, meðákærða í héraði og lögreglumanns spilaðar í heild sinni. Um mat á sönnunargildi framburðar meðákærða í héraði tók Landsréttur sérstaklega fram að líta yrði til þess að hann gaf skýrslu sína fyrir héraðsdómi sem sakborningur og með réttarstöðu sem slíkur en ekki sem vitni. Landsréttur gaf í þrígang út vitnakvaðningar á hendur meðákærða í héraði sem hafði þá farið af landi brott en hann gaf sig ekki fram við ákæruvald eða Landsrétt og mætti ekki til landsins vegna aðalmeðferðar málsins. Að virtum gögnum málsins verður í ljósi framangreinds ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Af framangreindu er ljóst að áfrýjun til réttarins mun ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar, sbr. lokamálslið 4. mgr. sömu greinar. Samkvæmt þessu er beiðni um áfrýjunarleyfi hafnað.