Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-138

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Grzegorz Marcin Krzton (Hilmar Gunnarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fíkniefnalagabrot
  • Framleiðsla
  • Samverknaður
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 23. apríl 2021 leitar Grzegorz Marcin Krzton leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 26. febrúar 2021 í málinu nr. 493/2020: Ákæruvaldið gegn Grzegorz Marcin Krzton og fleirum á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála en dómurinn var birtur verjanda hans 29. mars sama ár.

3. Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur ásamt öðrum fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa dagana 27. til 29. febrúar 2020 í félagi haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni og jafnframt staðið að framleiðslu á samtals 1.896,50 grömmum af amfetamíni, sem hafði á bilinu 34-66% styrkleika og samtals 1.071,15 grömmum af amfetamíni, sem hafði á bilinu 1,7-3,2% styrkleika. Háttsemi þeirra var talin varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að brotið hefði verið þaulskipulagt og framið í samverknaði, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, þótt aðkoma sakfelldu hefði verið með misjöfnum hætti. Var refsing leyfisbeiðanda ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði.

4. Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt. Hann byggir á því að það hafi verulega almenna þýðingu að fá úrlausn Hæstaréttar um skilyrði refsiábyrgðar, um upphafstíma framleiðslu fíkniefna, um skil milli hlutdeildar og samverknaðar og eftir atvikum afturhvarf frá tilraun. Leyfisbeiðandi telur meðal annars að mikilvægt sé að fá úrlausn Hæstaréttar um túlkun og beitingu 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 en gögn sem lögð hafi verið fram með beiðninni útiloki að leyfisbeiðandi hafi verið þátttakandi í hinni refsiverðu háttsemi eins og henni sé lýst í ákæru. Hann hafi verið staddur í öðru landi þá daga sem framleiðslan fór fram og útilokað að hann hafi haft vörslur þeirra fíkniefna sem getið sé um í ákæru eða að hann hafi verið þátttakandi í framleiðslu þeirra. Því telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til hvað varði sakfellingu hans.

5. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðni um áfrýjunarleyfi. Að mati ákæruvaldsins hafi Landsréttur réttilega komist að þeirri niðurstöðu að leyfisbeiðandi verði talinn aðalmaður í umræddu broti en þáttur hans hafi verið mikilvægur ekki síst varðandi undirbúning framleiðslu fíkniefnanna og öflunar þeirra efna sem nauðsynleg voru til hennar. Þá vísar ákæruvaldið til þess að óumdeilt hafi verið alla rannsókn málsins og við málsmeðferð fyrir dómi að leyfisbeiðandi hafi farið til Póllands skömmu áður en meðákærðu voru handtekin.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki talið að leyfisbeiðnin lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu né að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þótt nokkuð skorti á nákvæmni í hinum áfrýjaða dómi um þau ákæruatriði sem leyfisbeiðandi er fundinn sekur um eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðninni er því hafnað.