Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-72

María Björg Þórhallsdóttir og Ólafur Hvanndal Ólafsson (Jónas Fr. Jónsson lögmaður)
gegn
ÍL-sjóði (Áslaug Árnadóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skuldamál
  • Neytendalán
  • Samningur
  • Skuldabréf
  • Ógilding samnings
  • EES-samningurinn
  • Málsástæða
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.

2. Með beiðni 5. maí 2022 leita María Björg Þórhallsdóttir og Ólafur Hvanndal Ólafsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 8. apríl sama ár í máli nr. 617/2021: María Björg Þórhallsdóttir og Ólafur Hvanndal Ólafsson gegn ÍL-sjóði á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að heimild gagnaðila til að krefja leyfisbeiðendur í nóvember 2019 um þóknun vegna uppgreiðslu á húsnæðisláni sem þau höfðu tekið í júlí 2008 til 40 ára með útgáfu svokallaðs ÍLS-veðbréfs. Leyfisbeiðendur höfðuðu mál á hendur gagnaðila til endurgreiðslu uppgreiðslugjaldsins.

4. Hæstiréttur hafði áður veitt áfrýjunarleyfi 19. janúar 2021 vegna sama máls á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 en héraðsdómur hafði fallist á kröfur leyfisbeiðenda um endurgreiðslu uppgreiðslugjaldsins. Með dómi Hæstaréttar 27. maí 2021 í máli nr. 4/2021 var héraðsdómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað.

5. Héraðsdómur sýknaði gagnaðila af kröfum leyfisbeiðenda eftir nýja meðferð málsins í héraði og með dómi Landsréttar sem nú er leitað áfrýjunar á var sú niðurstaða staðfest. Landsréttur féllst ekki á með leyfisbeiðendum að upplýsingaskylda lánveitanda sem leiða mætti af 6., 7. og 9. gr. þágildandi laga nr. 121/1994 um neytendalán næði til uppgreiðslugjaldsins. Þegar af þeirri ástæðu hefði 14. gr. sömu laga um afleiðingar þess að lántökukostnaður væri ekki tilgreindur á fullnægjandi hátt í lánssamningi enga þýðingu í málinu. Þá tók Landsréttur fram að í lögum nr. 121/1994 væri ekki kveðið á um hverjar afleiðingar það gæti haft ef lánveitandi bryti gegn fyrirmælum 3. mgr. 16. gr. a að í lánssamningi væri kveðið á um hvernig uppgreiðslugjald skyldi reiknað. Rakið var að hið umdeilda ákvæði veðbréfsins um uppgreiðslugjald væri reist á fyrirmælum 3. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998 eins og það væri nánar útfært í ákvæðum reglugerða nr. 522/2004 og 1016/2005. Með dómi Hæstaréttar 27. maí 2021 í máli nr. 3/2021 hefði verið komist að þeirri niðurstöðu að umrædd reglugerðarákvæði ættu sér fullnægjandi lagastoð. Gæti því ekki komið til að álita að skilmálinn yrði metinn ógildur eða honum vikið til hliðar á grundvelli 36. gr. a-c laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þá var ekki fallist á að forsendur væru til að víkja skilmála veðbréfsins um uppgreiðslugjald til hliðar á grundvelli 36. gr. sömu laga. Þá var ekki fallist á að gagnaðili hefði brotið gegn ákvæðum laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu eða að efni væru til að verða við kröfu leyfisbeiðenda um að gagnaðila yrði gert að greiða þeim hluta uppgreiðsluþóknunarinnar. Loks var ekki fallist á að reglur kröfuréttar um endurgreiðslu ofgreidds fjár gætu átt við í málinu.

6. Leyfisbeiðendur byggja á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og hafi fordæmisgildi fyrir fjölda neytenda sem tóku lán með sambærilegum skilmálum. Leyfisbeiðandi vísar til þess að í málinu reyni meðal annars á túlkun grundvallaratriða varðandi upplýsingaskyldu fjármálafyrirtækja og hvað felist í heildarlántökukostnaði. Jafnframt sé mikilvægt að fá niðurstöðu Hæstaréttar um hvort að beita skuli meginreglu 14. gr. laga nr. 121/1994 þar sem skilyrðum 3. mgr. 16. gr. a hafi ekki verið fullnægt. Þá sé mikilvægt að fá túlkun Hæstaréttar á því hvort lög nr. 57/2005 eigi við um lántöku neytenda, einkum ákvæði 2. mgr. 9. gr. Að auki hafi málið fordæmisgildi um túlkun 36. gr. og 36. gr. a-c laga nr. 7/1936. Mikilvægt sé að fá úrlausn Hæstaréttar um sjónarmið varðandi nýjar málsástæður fyrir héraðsdómi og Landsrétti. Leyfisbeiðendur byggja einnig á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til meðal annars vegna þess að litið hafi verið framhjá því að stefndi uppfyllti ekki ríkar kröfur um forsvaranlega upplýsingagjöf og vönduð vinnubrögð auk þess sem óumdeilt sé að brotið hafi verið gegn lagaskyldu 3. mgr. 16. gr. a laga nr. 121/1994.

7. Að virtum gögnum málsins og öllu framansögðu verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi um atriði sem leyfisbeiðnin er reist á. Umsókn leyfisbeiðanda um áfrýjunarleyfi er því tekin til greina.