Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-9

A (Daníel Isebarn Ágústsson lögmaður)
gegn
Tryggingastofnun ríkisins og íslenska ríkinu (Einar Karl Hallvarðsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Almannatryggingar
  • Ellilífeyrir
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.

2. Með beiðni 19. janúar 2022 leitar A leyfis Hæstaréttar til að áfrýja beint til réttarins dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 2021 í máli nr. E-2667/2020: A gegn Tryggingastofnun ríkisins og íslenska ríkinu á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðilar telja ýmsum skilyrðum fyrir veitingu áfrýjunarleyfis fullnægt og margt mæla með því að málið fái skjóta úrlausn.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að viðurkennt verði með dómi að gagnaðila Tryggingastofnun ríkisins hafi á tímabilinu 1. mars 2017 til 1. apríl 2020 verið óheimilt að skerða ellilífeyri hans samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar um 45% af greiðslum til hans úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum sem voru umfram 25.000 krónur á mánuði. Leyfisbeiðandi byggir í fyrsta lagi á því að með lögum nr. 116/2016 og nr. 9/2017, sem breyttu lögum nr. 100/2007 og komu á þessari skipan, sé gengið lengra í þá átt að skerða eignarréttindi hans en samrýmst geti 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. Í öðru lagi gangi löggjafinn lengra í þá átt að mismuna ellilífeyrisþegum með tilliti til aðildar þeirra að lífeyrissjóðum og þátttöku á vinnumarkaði en samrýmst geti ákvæðum 65. gr. stjórnarskrárinnar og 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

4. Með dómi héraðsdóms voru gagnaðilar sýknaðir af kröfu leyfisbeiðanda. Í dóminum kom meðal annars fram að ekki væri fallist á það með leyfisbeiðanda að sá greinarmunur sem lög gerðu á greiðslum úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum og öðrum greiðslum sem hann notaði til samanburðar byggðist á ómálefnalegum sjónarmiðum sem væru andstæð jafnræðisreglu stjórnarskrár eða, eftir atvikum, 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka við sáttmálann. Þótt skiptar skoðanir gætu verið um fyrirkomulag og réttmæti þeirra skerðinga sem viðhafðar væru á útreikningi ellilífeyris á grundvelli laga nr. 100/2007, eins og þeim var breytt með lögum nr. 116/2016 og nr. 9/2017, væri einsýnt að þær gengu jafnt yfir alla sem þiggja lífeyrisgreiðslur úr atvinnutengdum sjóðum.

5. Leyfisbeiðandi byggir í fyrsta lagi á því að rík þörf sé að fá endanlega niðurstöðu Hæstaréttar með skjótum hætti. Því til stuðnings vísar hann til þess að ágreiningsefnið lúti að veigamiklum hagsmunum sem njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. Þá sé ekki aðeins deilt um hagsmuni leyfisbeiðanda heldur hafi niðurstaðan áhrif á 36.000 einstaklinga. Í öðru lagi byggir hann á því að niðurstaða málsins sé fordæmisgefandi enda hafi ekki áður reynt á sambærilegt álitaefni fyrir Hæstarétti. Í því samhengi tekur hann fram að samhliða máli þessu séu rekin tvö önnur sambærileg mál þar sem reyni á lögmæti fyrrgreindra skerðinga laga nr. 100/2007. Nokkur munur kunni að vera á réttarstöðu einstakra lífeyrisþega og því hafi þessi þrjú mál verið höfðuð samhliða. Loks byggir leyfisbeiðandi á því í þriðja lagi að niðurstaða málsins hafi með vísan til framangreinds verulega almenna og samfélagslega þýðingu.

6. Mál þetta hefur þýðingu fyrir rétt fjölda einstaklinga til greiðslu ellilífeyris hjá gagnaðila Tryggingastofnun ríkisins og varðar mikla hagsmuni þeirra og ríkissjóðs. Jafnframt verður að telja brýnt að fá niðurstöðu Hæstaréttar með skjótum hætti en málið er fordæmisgefandi og hefur almenna þýðingu fyrir stjórnskipulegt gildi laga nr. 116/2016 og nr. 9/2017. Þá hafa málsaðilar hvorki lýst því yfir að þörf sé á að leiða vitni í málinu né að ágreiningur sé um sönnunargildi munnlegs framburðar í héraði. Samkvæmt öllu þessu er fullnægt skilyrðum 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni um að áfrýja héraðsdómi beint til Hæstaréttar verður því tekin til greina.