Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-139

Georg Rúnar Ögmundsson, Halldóra Ögmundsdóttir Michelsen, Rósa Hrönn Ögmundsdóttir og Sara Ögmundsdóttir (Björn Þorri Viktorsson lögmaður)
gegn
Kristni Guðmundssyni (Steinbergur Finnbogason lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Ógilding
  • Yfirlýsing
  • Kaupsamningur
  • Skaðabótakrafa
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 18. nóvember 2022 leita Georg Rúnar Ögmundsson, Halldóra Ögmundsdóttir Michelsen, Rósa Hrönn Ögmundsdóttir og Sara Ögmundsdóttir leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 21. október sama ár í máli nr. 441/2021: Kristinn Guðmundsson gegn Georg Rúnari Ögmundssyni, Halldóru Ögmundsdóttur Michelsen, Rósu Hrönn Ögmundsdóttur og Söru Ögmundsdóttur. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að gildi kaupsamnings milli gagnaðila og dánarbús móður leyfisbeiðenda þar sem dánarbúið seldi gagnaðila 50% eignarhlut í fasteign á Spáni. Í samningnum var einnig staðfest að gagnaðili ætti 50% eignarhlut í eigninni þótt eignin hafi verið skráð á móður leyfisbeiðenda. Með kaupunum átti gagnaðili að verða einn eigandi eignarinnar. Í málinu kröfðust leyfisbeiðendur aðallega ógildingar á kaupsamningnum en til vara riftunar.

4. Héraðsdómur féllst á að ógilda bæri yfirlýsingu í kaupsamningnum um að gagnaðili hefði verið eigandi helmings eignarinnar vegna brostinna forsendna og að leyfisbeiðendum hefði verið heimilt vegna verulegra vanefnda að rifta sölunni á þeim hluta sem gagnaðili hélt fram að hann hefði keypt árið 2013. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að leyfisbeiðendum hefði verið heimilt að rifta kaupum gagnaðila á helmingshlut í fasteigninni samkvæmt framangreindum kaupsamningi. Á hinn bóginn sýknaði rétturinn gagnaðila af öðrum kröfum leyfisbeiðenda, þar á meðal um ógildingu yfirlýsingar í kaupsamningnum um að gagnaðili ætti helmingshlut í fasteigninni. Í því sambandi var lagt til grundvallar að gagnaðili hefði innt af hendi umtalsverðar greiðslur vegna kaupa á eignarhlutanum auk þess sem horft var til þess að yfirlýsingin hefði verið fyrirvaralaus. Taldi Landsréttur það því ekki hafa verið ákvörðunarástæðu leyfisbeiðenda fyrir yfirlýsingunni að gagnaðili skyldi færa frekari sönnur að greiðslum fyrir eignarhlutann.

5. Leyfisbeiðendur byggja á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um sönnunarbyrði og sönnunarkröfur þegar byggt er á því að kaupsamningur um fasteign hafi verið til málamynda. Þá byggja leyfisbeiðendur á því að málið varði mikilvæga hagsmuni sína. Loks byggja þau á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, einkum um þýðingu samskipta sinna við gagnaðila. Þannig hafi Landsréttur ranglega talið að yfirlýsing í kaupsamningnum hafi verið fyrirvaralaus og að þau hefðu fallið frá kröfu sinni um að gagnaðili myndi sanna eignarrétt sinn. Auk þess hafi Landsréttur byggt á röngum sönnunarkröfum um eignarrétt gagnaðila. Leyfisbeiðendur telja því að einnig hafi átt að ógilda yfirlýsingu þeirra.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.