Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-84
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Uppsögn
- Veikindalaun
- Orlof
- Yfirvinna
- Ráðningarsamningur
- Skaðabætur
- Miskabætur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir.
2. Með beiðni 23. júní 2023 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 26. maí 2023 í máli nr. 30/2022: A gegn B og gagnsök. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila lýtur að uppgjöri vegna starfsloka leyfisbeiðanda hjá gagnaðila.
4. Með dómi Landsréttar var gagnaðili sýknaður af öllum kröfum leyfisbeiðanda en með héraðsdómi var að hluta til fallist á kröfur hans um yfirvinnu og lögfræðikostnað en sýknað að öðru leyti. Þá var kröfum vegna launatengdra gjalda vísað frá dómi. Varðandi kröfu leyfisbeiðanda um ógreitt orlof komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að ekkert væri komið fram í málinu sem gæfi ástæðu til að ætla að aðilar hafi samið um orlofsréttindi leyfisbeiðanda á þann veg sem hann hélt fram og að fyrirmæli laga og kjarasamninga stæðu ekki til þess að taka kröfu hans um ógreitt orlof til greina. Því var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnaðila af þeirri kröfu. Þá taldi Landsréttur að leyfisbeiðandi hefði ekki rennt viðhlítandi stoðum undir kröfu sína um greiðslu fyrir yfirvinnu og engar forsendur væru til að taka hana til greina að álitum. Um kröfu leyfisbeiðanda um greiðslu lögmannskostnaðar kom fram í dómi Landsréttar að hún væri að meginstefnu til studd við tölvubréf sem varaformaður stjórnar gagnaðila sendi lögmanni leyfisbeiðanda. Landsréttur taldi ekki forsendur til að líta svo á að gagnaðili hefði með bréfinu eða á annan hátt skuldbundið sig til að greiða kostnað leyfisbeiðanda vegna lögfræðiaðstoðar umfram það sem yrði samþykkt af félaginu og að réttmætar væntingar hans hefðu ekki getað staðið til slíks. Loks var gagnaðili sýknaður af kröfu leyfisbeiðanda um skaðabætur og miskabætur með vísan til þess að uppsögn leyfisbeiðanda hefði verið lögmæt.
5. Leyfisbeiðandi byggir í fyrsta lagi á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og sakarefni þess hafi mikið fordæmisgildi á almennum vinnumarkaði. Vísar hann meðal annars til þess að niðurstaða málsins gangi gegn dómaframkvæmd og þeirri meginreglu að sönnunarbyrði í vinnuréttarmálum hvíli á vinnuveitanda. Þá sé niðurstaða Landsréttar um að hafna kröfu um greiðslu vegna lögmannskostnaðar í andstöðu við meginreglur samningaréttar um skuldbindingargildi loforða. Úrlausn um lögmæti uppsagnar hans hafi jafnframt verulegt almennt gildi einkum í ljósi þess að hann var í veikindaleyfi. Þá telur hann að úrlausn um miskabótakröfu sína hafi verulegt almennt gildi. Leyfisbeiðandi byggir í öðru lagi á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Í þriðja lagi byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Enn fremur telur hann niðurstöðu Landsréttar bersýnilega ranga að formi til þar sem Landsréttur hafi ekki fjallað um málatilbúnað hans um miskabætur vegna vinnuaðstæðna, eineltis, ofbeldis og saknæms athafnaleysis. Loks gerir hann athugasemdir við hæfi héraðsdómara í málinu.
6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.