Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-212

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Stefán Karl Kristjánsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Hjálparskylda
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 30. júní 2021 leitar X leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 28. maí sama ár í málinu nr. 574/2020: Ákæruvaldið gegn X á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærða var birtur dómurinn 4. júní 2021. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 221. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa látið farast fyrir að koma brotaþola undir læknishendur þegar hún veiktist lífshættulega og lést úr bilun á miðtaugakerfi vegna alvarlegrar vímuefnaeitrunar. Leyfisbeiðanda var gert að sæta fangelsi í 12 mánuði. Með vísan til alvarleika brotsins og sakaferils hans þóttu ekki efni til þess að skilorðsbinda refsinguna.

4. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulega almenna þýðingu um inntak og túlkun 1. mgr. 221. gr. almennra hegningarlaga. Hann telur ljóst að orðalag ákvæðisins bendi til þess að refsivert sé að bregðast á engan hátt við til að aðstoða mann í lífsháska en sú hafi ekki verið raunin í tilviki hans þar sem hann hafi brugðist á ákveðinn hátt við þeim lífsháska sem brotaþoli var í. Það hafi á hinn bóginn ekki nægt til að bjarga lífi hennar. Dómur Landsréttar sýni að þær kröfur sem þar séu gerðar til manna í aðstæðum þar sem reyni á ákvæðið séu talsvert meiri en ætla mætti af orðalagi þess. Ótækt sé að orðalag ákvæðis sem feli í sér refsiheimild sé svo matskennt og þversagnakennt. Leyfisbeiðandi telur að nauðsynlegt sé að Hæstiréttur kveði með afdráttarlausum og skýrum hætti á um inntak ákvæðisins.

5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðninni er því hafnað.