Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-156

A (Sævar þór Jónsson lögmaður)
gegn
ÍL-sjóði (Hannes J. Hafstein lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skaðabætur
  • Nauðungarsala
  • Greiðsluaðlögun
  • Viðurkenningarkrafa
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 20. desember 2023 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 24. nóvember sama ár í máli nr. 350/2022: A gegn ÍL-sjóði. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda á hendur gagnaðila um viðurkenningu á skaðabótaskyldu vegna mistaka starfsmanna gagnaðila við skilmálabreytingu þriggja lána sem leyfisbeiðandi tók hjá gagnaðila og tryggð voru með veði í fasteign hans.

4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um sýknu gagnaðila af kröfu leyfisbeiðanda. Fyrir lá að gagnaðila urðu á mistök við skilmálabreytingu lána leyfisbeiðanda þannig að við fjölgun árlegra gjalddaga úr fjórum í tólf hafði láðst að fjölga gjalddögum lánanna sem leiddi til þess að lánstími þeirra styttist og greiðslubyrði hækkaði í samræmi við það. Í dómi Landsréttar var vísað til yfirmatsgerðar sem leyfisbeiðandi aflaði til sönnunar á tjóni sínu. Niðurstaða hennar var að eftirstöðvar lána, sem höfðu hvílt á fasteign hans, hefðu verið hærri en markaðsvirði fasteignarinnar við nauðungarsölu hennar. Var því staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að leyfisbeiðandi hefði ekki sýnt fram á að hann hefði orðið fyrir fjárhagslegu tjóni við nauðungarsöluna. Þá komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að orsakir þess að leyfisbeiðandi hefði ekki átt kost á greiðsluaðlögun á grundvelli laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga yrðu ekki raktar til mistaka gagnaðila heldur til hans sjálfs þar sem hann hefði hvorki lagt fyrir fé meðan hann var í greiðsluskjóli né reynt að standa við skuldbindingar sínar. Ekki var fallist á að ástæður þess að honum hefðu ekki staðið til boða önnur úrræði vegna greiðsluerfiðleika mætti rekja til mistaka gagnaðila heldur hafi ástæðan fyrst og fremst verið að greiðsluvandi hans var ekki tímabundinn. Að auki hefði leyfisbeiðandi ekki leitt að því líkur að skort hefði á viðeigandi ráðgjöf af hálfu gagnaðila eða hann að öðru leyti sýnt af sér aðra saknæma háttsemi þannig að varðaði bótaskyldu.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé rangur að efni. Hann vísar einkum til þess að gagnaðili eigi að bera hallann af sönnun tjónsins. Meðal annars sé á reiki hvert hafi verið raunverulegt markaðsverðmæti fasteignar hans á þeim degi er nauðungarsala fór fram og verði gagnaðili að bera hallann af því að hafa ekki sýnt fram á að eignin hafi verið yfirveðsett. Þá hvíli sönnun um hvort viðeigandi ráðgjöf og leiðbeiningar hafi verið veittar af hálfu gagnaðila á honum í samræmi við reglur skaðabótaréttar um sérfræðiábyrgð. Leyfisbeiðandi byggir einnig á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína enda hafi hann misst aleiguna við nauðungarsölu fasteignarinnar sem hafi verið bein afleiðing mistaka gagnaðila við skilmálabreytingu fasteignaveðlánanna.

6. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómurinn sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.