Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-201

1924 ehf. (Reimar Pétursson lögmaður)
gegn
Seðlabanka Íslands (Ástríður Gísladóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Stjórnsýsla
  • Skaðabætur
  • Gjaldeyrismál
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 13. júlí 2021 leitar 1924 ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 18. júní sama ár í málinu nr. 190/2020: 1924 ehf. gegn Seðlabanka Íslands á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um skaðabætur á grundvelli þess að ólögmæt og saknæm háttsemi starfsmanna gagnaðila hafi orðið til þess að greiðslur sem hann hafi átt rétt á frá félaginu Klakka ehf. vegna nauðasamnings félagsins hafi tafist. Telur leyfisbeiðandi að hann hefði getað notið betri ávöxtunar á fjármunum sínum þann tíma sem gagnaðili hafði til athugunar hvort útgreiðslur Klakka ehf. til hans stæðust ákvæði laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál en á meðan lágu þeir á fjárvörslureikningi. Héraðsdómur sýknaði gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu með framangreindum dómi.

4. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulegt almennt gildi um mörk stjórnvaldsákvarðana samkvæmt 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og leiðbeininga samkvæmt 7. gr. sömu laga enda tengist mikilvægar réttarverkanir því að stjórnvöld greini rétt á milli þess hvort afstaða þeirra teljist ákvörðun eða leiðbeiningar. Leyfisbeiðandi telur að úrlausnarefni um þetta atriði hafi almenna skírskotun og að dómur Hæstaréttar um það sé til þess fallinn að hafa umtalsvert fordæmisgildi. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að málið hafi verulegt almennt gildi um bótaskyldu á sviði opinberrar stjórnsýslu og að brýnt sé að Hæstiréttur kveði upp fordæmisgefandi dóm um hvernig skilja beri dómaframkvæmd hans um svonefnt reglufest saknæmi og þær undantekningar sem virðist mega finna á henni.

5. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.