Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-154

Björn Kristjánsson Arnarson (Þórður Heimir Sveinsson lögmaður)
gegn
Lífeyrissjóði verzlunarmanna (Ólafur G. Gústafsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Lán
  • Vextir
  • Fyrning
  • Neytendur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 14. desember 2023 leitar Björn Kristjánsson Arnarson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 17. nóvember sama ár í máli nr. 441/2022: Björn Kristjánsson Arnarson gegn Lífeyrissjóði verzlunarmanna. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort gagnaðila sé skylt að endurreikna lán leyfisbeiðanda vegna tveggja nánar tilgreindra skuldabréfa sem gefin voru út árin 2002 og 2008, með hliðsjón af því að vextir og verðbætur afborgana eldri en fjögurra ára á nánar tilgreindum dögum í desember 2016 væru fyrndar.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnaðila. Í dómi Landsréttar kom fram að þegar umboðsmaður skuldara hefði veitt leyfisbeiðanda heimild til að leita greiðsluaðlögunar í mars 2012 hefði hafist tímabundin frestun greiðslna þar sem gagnaðila var samkvæmt a-lið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga óheimilt að krefjast eða taka við greiðslu á kröfum sínum. Strax í kjölfar þess að úrskurðarnefnd velferðarmála staðfesti ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella úr gildi umleitanir leyfisbeiðanda um greiðsluaðlögun hefði skuld hans verið reiknuð út og honum kynnt staða hennar ásamt vöxtum og verðbótum. Leyfisbeiðandi hefði hafið greiðslu hennar í janúar 2017. Einnig hefði leyfisbeiðandi þrívegis undirritað skilyrt veðleyfi þar sem skuld hans við gagnaðila hefði verið tilgreind. Með þessum afborgunum og beinni viðurkenningu á skuldastöðu var talið að leyfisbeiðandi hefði rofið fyrningu krafna um vexti og verðbætur.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi en úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki hafi úrskurðað leyfisbeiðanda í hag árið 2021 en gagnaðili ekki farið að samþykktum úrskurðarnefndarinnar. Þá telur leyfisbeiðandi að dómurinn sé bersýnilega rangur að formi og efni til og varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hans. Í dómi héraðsdóms sem Landsréttur staðfesti sé umfjöllun um að leyfisbeiðandi hafi þrívegis undirritað skilyrt veðleyfi þar sem skuld hans hafi verið tilgreind. Leyfisbeiðandi leggur áherslu á að hann sé almennur neytandi með stúdentspróf og að það stríði gegn meginreglu neytendaréttar að hann þurfi að bera hallann af því að hafa ekki verið kunnugt um rétt sinn. Þá sé ósanngjarnt að ætlast til þess að leyfisbeiðandi hafi átt að gera fyrirvara við endurútreikning lána, hann hafi ekki skilið gögnin sem lágu að baki útreikningum gagnaðila og fengið þau seint í hendur. Árið 2018, í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 736/2014, hafi farið af stað umræða um fyrningu krafna. Þá hafi leyfisbeiðandi farið að efast um útreikning lána sinna og í kjölfarið leitað sér lögfræðiaðstoðar árið 2021.

6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómurinn sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.