Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-134

Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)
gegn
Magnúsi Guðmundssyni (Kristín Edwald lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fjármálafyrirtæki
  • Umboðssvik
  • Ásetningur
  • Hlutdeild
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 16. apríl 2021 leitar Magnús Guðmundsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 19. mars sama ár í málinu nr. 604/2019: Ákæruvaldið gegn Hreiðari Má Sigurðssyni, X og Magnúsi Guðmundssyni, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Í málinu voru ákærðu Hreiðar Már og X í fjórum ákæruliðum bornir sökum um að hafa brotið gegn 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um umboðssvik með því að hafa í sameiningu misnotað aðstöðu sína hjá Kaupþingi banka hf. og stefnt fé bankans í verulega hættu með því að fara út fyrir heimildir til lánveitinga. Leyfisbeiðandi var borinn sökum um hlutdeild í hluta brotanna, sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga. Í héraði voru ákærðu allir sýknaðir en Landsréttur sakfelldi ákærða Hreiðar Má fyrir hluta brotanna. Leyfisbeiðandi var sakfelldur fyrir hlutdeild í hluta þeirra brota sem ákærði Hreiðar Már var sakfelldur fyrir en sýknaður af öðrum. Með hliðsjón af 78. gr., sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga, hámarksrefsingu samkvæmt 249. gr. sömu laga og þeim töfum sem hefðu orðið á meðferð málsins var hvorugum þeirra gerð refsing í málinu. Ákærði X var sýknaður af öllum ákæruliðum.

4. Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt og bendir í þeim efnum á að leyfisbeiðandi hafi tvívegis verið sýknaður í héraði af öllum sakargiftum en fyrri héraðsdómur hafi verið ómerktur í Hæstarétti með dómi í máli nr. 156/2016. Hann telur að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Í því sambandi bendir hann á að Landsréttur hafi ranglega komist að því að veruleg fjártjónshætta hafi verið samfara lánveitingunum og að mat réttarins á skjallegum gögnum samkvæmt 86. til 88. lið dómsins sé bersýnilega rangt. Enn fremur telur hann að í dómi Landsréttar séu ekki metin sjálfstætt huglæg refsiskilyrði hvað hann varðar, sbr. 18. og 22. gr. almennra hegningarlaga. Þá telur hann að algerlega ósannað sé að ásetningur hans hafi staðið til þess að hin meintu brot yrðu fullframin. Landsréttur hafi auk þess horft fram hjá fyrirliggjandi samtímagögnum sem staðfesti að huglæg afstaða hans hafi aldrei staðið til þess að valda fjártjónshættu eða eiga hlutdeild í umboðssvikum. Í beiðni leyfisbeiðanda er ekki rökstutt nánar að hvaða leyti úrlausn Landsréttar sé röng um þau atriði sem hann byggir á.

5. Að virtum dómi Landsréttar og því sem leyfisbeiðandi hefur teflt fram í beiðni sinni verður ekki litið svo á að beiðnin lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá er hvorki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar né verður talið að áfrýjun muni verða til þess að breyta dómi Landsréttar, sbr. 4. málslið 4. mgr. hennar. Beiðninni er því hafnað.