Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-106
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Hæfi dómara
- Vanhæfi
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 25. september 2023 leitar LOGOS slf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að kæra úrskurð Landsréttar 13. september sama ár í máli nr. 434/2023: LOGOS slf. gegn Sjöstjörnunni ehf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Með úrskurði Landsréttar var úrskurður héraðsdóms um að héraðsdómari í málinu viki sæti staðfestur með vísan til forsendna. Í úrskurði héraðsdóms kom fram að málatilbúnaður gagnaðila væri meðal annars reistur á atriðum sem hefðu komið til skoðunar í öðru máli sem gagnaðili hafði höfðað á hendur KPMG ehf. þar sem héraðsdómarinn hefði átt sæti. Ljóst væri að með afstöðu sinni til þeirra atriða sem hefðu komið til skoðunar í því máli væru fyrir hendi aðstæður sem væru til þess fallnar að draga óhlutdrægni dómarans með réttu í efa í skilningi g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991.
4. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi fordæmisgildi um hvenær dómari telst vanhæfur. Vísar hann til þess að niðurstaða úrskurðar Landsréttar leiði til þess að sú framkvæmd sem studd sé dómvenju að sami dómari fái úthlutað heimvísuðum málum og einnig að sami dómari geti fjallað um tengd mál sé háð óvissu. Þá sé niðurstaða úrskurðar Landsréttar bersýnilega röng að efni til þar sem ekki séu til staðar neinar þær kringumstæður sem geti vakið efasemdir um hæfi héraðsdómarans. Byggir leyfisbeiðandi á því að af lýsingu málavaxta megi ráða að héraðsdómari hafi ekkert komið nálægt því sakarefni sem gagnaðili byggi meinta bótaskyldu leyfisbeiðanda á í efnisþætti málsins. Að auki hafi Landsréttur með fyrri úrskurði sínum sérstaklega staðfest að málsástæður gagnaðila gegn KPMG ehf. annars vegar og leyfisbeiðanda hins vegar séu tvö sjálfstæð úrlausnarefni.
5. Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft fordæmisgildi um hæfi dómara vegna setu hans í öðrum málum. Beiðni um kæruleyfi er því samþykkt.