Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-49
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Húsfélag
- Fjöleignarhús
- Aðild
- Dráttarvextir
- Innborgun
- Lögveð
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Björg Thorarensen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
2. Með beiðni 7. apríl 2022 leitar Jón Ingvar Garðarsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 11. mars sama ár í máli nr. 23/2021: Jón Ingvar Garðarsson gegn Húsfélaginu Hverafold 1-3 á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Gagnaðili höfðaði mál þetta á hendur leyfisbeiðanda til greiðslu gjalda í hússjóð og framkvæmdasjóð fyrir tímabilið 1. júlí 2013 til 1. desember 2019 og um viðurkenningu á lögveðrétti. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að fallast á framangreindar kröfur gagnaðila. Landsréttur féllst á með gagnaðila að líta bæri á Hverafold 1-3 og 5 sem eitt hús í skilningi 3. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Af því leiddi að ekkert væri því til fyrirstöðu að um eignina Hverafold 1-5 væri rekið eitt húsfélag. Þá vísaði Landsréttur til þess að gagnaðili hefði lagt fram ítarleg gögn þar sem útreikningar á innheimtum greiðslum væru skýrðir og sundurliðaðir. Leyfisbeiðandi hefði engin gögn lagt fram sem renndu fullnægjandi stoðum undir að gjöldin hefðu ekki verið reiknuð út í samræmi við eignaskiptayfirlýsingar né heldur að útreikningarnir stönguðust á við ákvæði laga nr. 26/1994. Þá var hvorki fallist á mótmæli leyfisbeiðanda við upphafstíma dráttarvaxta né kröfu hans varðandi frádrátt á nánar tilgreindum innborgunum.
4. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur. Um það vísar hann meðal annars til þess að hann hafi margvíslegar athugasemdir við útreikning og sundurliðun þeirrar kröfu sem honum var gert að greiða með dómi Landsréttar, meðal annars varðandi álag og kostnað við gerð eignaskiptayfirlýsingar. Jafnframt telur leyfisbeiðandi að niðurstaða Landsréttar um meðal annars upphafstíma dráttarvaxta sé bersýnilega röng.
5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi eða varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda, sbr. 3. málslið 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá er ekki ástæða til að ætla að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu greinar. Beiðninni er því hafnað.