Ávarp

Ávarp forseta Hæstaréttar, Þorgeir Örlygsson

Forseti Íslands,
forsætisráðherra,
forseti Alþingis,
dómsmálaráðherra,
góðir gestir.

Við erum hér saman komin í dag til að minnast þess að á þessu ári eru liðin 100 ár frá því Hæstiréttur Íslands tók til starfa.

Allsherjarríki var stofnað á Íslandi árið 930 og upphaflega var æðsta dómsvaldið í landinu í höndum Alþingis. Með Jónsbók færðist það úr landi árið 1281 með því að skjóta mátti dómum til konungs, fyrst Noregs og síðar Danmerkur. Frá 1732 var æðsta dómsvaldið á Íslandi í höndum Hæstaréttar Danmerkur en til hans mátti skjóta dómum æðsta innlenda dómstólsins, fyrst yfirréttar á Alþingi og svo Landsyfirréttar frá árinu 1800. Landsyfirréttur var stofnaður árið 1800 og til ársins 1920 var hann millidómstig í þriggja þrepa dómskerfi eða í 120 ár.

Með sambandslögunum árið 1918 náðist sá árangur í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki og var þá til lykta leidd deilan um samband þess og Danmerkur.

Mikilvægur þáttur sjálfstæðisbaráttunnar var að Ísland fékk fullt ákvörðunarvald um skipan dómsvaldsins í landinu. Stofnun Hæstaréttar er því samofin sjálfstæðisbaráttunni.

Í framhaldi af setningu sambandslaganna árið 1918 hófst undirbúningur að stofnun Hæstaréttar Íslands, sem komið var á fót með lögum frá árinu 1919, en rétturinn tók til starfa í ársbyrjun 1920. Varð þá til það tveggja þrepa dómskerfi sem Íslendingar bjuggu við næstu 120 árin.

Þegar litið er yfir það tímabil sem liðið er frá því Ísland varð frjálst og fullvalda ríki árið 1918 og mat er lagt á það hvaða þættir varðandi dómstólaskipan landsins munu taldir markverðastir á þessu tímabili hygg ég að þrír áfangar í þeirri vegferð muni þykja mestu skipta.

Í fyrsta lagi nefni ég stofnun Hæstaréttar 1920. Það hlýtur að vera ófrávíkjanlegur þáttur fyrir sjálfstæði og sjálfsvirðingu hverrar þjóðar að hún hafi sjálf fullt ákvörðunarvald um skipan dómsvaldsins á forráðasvæði sínu.

Í öðru lagi mun sá aðskilnaður dómsvalds og framkvæmdarvalds í héraði sem varð á árinu 1989 teljast mikilvægur áfangi í framþróun réttarins og liður í því að tryggja sjálfstæði dómsvaldsins í landinu.

Í þriðja lagi nefni ég að stofnun Landsréttar á árinu 2018 mun án efa teljast einn merkasti viðburður réttarsögunnar á fullveldistímanum. Setning laga um Landsrétt átti sér langan aðdraganda og engum blandast hugur um að með stofnun hans og þeim breytingum sem samhliða voru gerðar á dómstólaskipan landsins var stigið stórt skref í átt til aukins réttaröryggis hér á landi.

Frá stofnun Hæstaréttar árið 1920 gegndi rétturinn í senn hlutverki áfrýjunardómstóls og fordæmisgefandi dómstóls. Með stofnun Landsréttar árið 2018 varð til þriðja dómstigið í landinu og tók Landsréttur þá við hlutverki Hæstaréttar sem áfrýjunardómstóll.

Með því þriggja þrepa dómskerfi sem komið var á árið 2018 var Hæstarétti með lögum fengið annað hlutverk. Vill sú staðreynd stundum gleymast í dægurumræðunni. Hæstarétti er í hinu nýja kerfi ætlað að starfa í einni deild og dæma einungis í veigamiklum, fordæmisgefandi og stefnumarkandi málum. Eykur þetta án efa fordæmisgildi dóma Hæstaréttar.

Með þeirri skipan mála sem komið var á árið 2018 hefur íslensku dómskerfi verið sköpuð umgjörð sem gerir því kleift að standa jafnfætis dómskerfum þeirra ríkja þar sem réttaröryggið er mest og við helst viljum bera okkur saman við.

Þeirra tímamóta að 100 ár séu liðin frá því Hæstiréttur Íslands tók til starfa minnumst við með þeirri hátíðardagskrá sem fram fer hér í dag. Jafnframt hefur Hæstiréttur í samvinnu við ríkisstjórn Íslands staðið að útgáfu rits sem helgað er 100 ára afmælinu. Það rit er tvískipt. Fyrsti hluti þess, sem kemur út í dag, hefur að geyma 18 ritgerðir eftir 22 höfunda um valda málaflokka og réttarsvið sem verið hafa áberandi í starfi réttarins á þessum 100 árum. Annar hlutinn hefur að geyma sögu Hæstaréttar á 100 ára starfstíma hans. Til þess verks var ráðinn Arnþór Gunnarsson sagnfræðingur og er stefnt að útgáfu þess rits í byrjun næsta vetrar.

Ég vil að endingu nota þetta tækifæri til að færa ríkisstjórn Íslands þakkir Hæstaréttar fyrir liðsinni við útgáfu afmælisritsins og stuðning við að þessi hátíðarsamkoma megi fara sem best fram.

Ég segi samkomuna setta.

Takk fyrir

Tengt efni

Ávarp forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, fjallaði um þátt Hæstaréttar í sögu síðustu aldar í ávarpi sínu í tilefni 100 ára afmælis réttarins. Hún sagði dómasafn Hæstaréttar mikilvægan aldarspegil.