Bótakröfu vegna sýknu í sakamáli hafnað

Í dag var kveðinn upp dómur í máli þar sem kona krafði íslenska ríkið um skaðabætur vegna rannsóknar lögreglu sem síðar leiddi til ákæru á hendur henni. Með dómi héraðsdóms var konan sýknuð af sakargiftum samkvæmt ákærunni. Var skaðabótakrafa hennar reist annars vegar á 246. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og hins vegar b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í dómi Hæstaréttar kom fram að útgáfa ákæru og höfðun sakamáls gæti ekki leitt til bótaskyldu á grundvelli hlutlægrar bótaábyrgðar. Skýra yrði 1. mgr. og 2. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008 á þann veg að væri fullnægt skilyrðum 1. mgr. greinarinnar, um að sakamáli hefði lokið á þar tilgreindan hátt án sakaráfalls, ættu þeir einir rétt til bóta á grundvelli hlutlægrar bótaábyrgðar, er sætt hefðu nánar tilgreindum rannsóknaraðgerðum sem um ræddi í 2. mgr. hennar. Hafði konan ekki sætt slíkum aðgerðum og var kröfu hennar um bætur á þeim grunni því hafnað. Þá var ekki talið að færðar hefðu verið sönnur á að íslenska ríkið hefði með saknæmum og ólögmætum hætti brotið gegn frelsi, friði, æru eða persónu hennar í skilningi b. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Var íslenska ríkið því sýknað af kröfu konunnar.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.