Ekki kæruheimild í nálgunarbannsmálum

Í dag var kveðinn upp dómur í kærumáli þar sem úrskurður Landsréttar, um staðfestingu á úrskurði héraðsdóms um að tiltekinn einstaklingur skyldi sæta nánar tilgreindu nálgunarbanni, hafði verið kærður til Hæstaréttar á grundvelli laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Í dómi sínum rakti Hæstiréttur þær lagabreytingar sem gerðar höfðu verið á lögum nr. 85/2011 og lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála í tilefni þeirra breytinga sem urðu á íslenskri réttarskipan við stofnun nýs millidómstigs. Vísaði Hæstiréttur til þess að eftir þær breytingar væru kæruheimildir til Hæstaréttar í sakamálum mjög takmarkaðar og tæmandi taldar í 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008. Væri því ekki fyrir að fara heimild til kæru í málinu. Var málinu samkvæmt því vísað frá Hæstarétti.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.