Fyrsti málflutningurinn á nýju ári

Í dag fór fram fyrsti málflutningurinn í Hæstarétti eftir að lokið var við meðferð þeirra mála sem áfrýjað var til réttarins samkvæmt eldri dómstólaskipan. Kæruleyfi var veitt í málinu 21. ágúst 2018 (sjá hér) en í því er deilt um gildi fjárnáms sem sýslumaður gerði í fasteign sóknaraðila til tryggingar kröfu um vangreidd opinber gjöld fyrrum sambúðarmanns hennar vegna tekjuáranna 2006 og 2007. Munu sóknaraðili og sambúðarmaður hennar hafa verið samsköttuð fram til ársins 2012 er þau slitu samvistum. Með úrskurði felldi héraðsdómur fjárnámið úr gildi en Landsréttur staðfesti á hinn bóginn fjárnámið með hinum kærða úrskurði. Ágreiningur málsaðila lýtur að ábyrgð sambúðarfólks á gjöldum maka sem þeir eru samskattaðir með að því er varðar gjöld sem eiga rætur að rekja til álags á tekjuskattstofna. Telur sóknaraðili það ekki standast að hún beri ábyrgð á þeim refsiviðurlögum sem felist í beitingu álags á vantalda skattstofna sambúðarmaka síns og vísar í þeim efnum til ákvæðis 69. gr. stjórnarskrárinnar. Um ábyrgð sóknaraðila á skattgreiðslum fyrrum sambúðarmaka hennar vísar sýslumaður til 116. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt sem mæli fyrir um slíka ábyrgð.