Dómur um lögmæti ákvörðunar lögreglustjóra um breytingar á starfskyldum aðstoðaryfirlögregluþjóns

Í dag var kveðinn upp dómur í máli þar sem deilt var um lögmæti ákvörðunar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2016 um breytingu á starfsskyldum aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá embættinu. Að virtum samtímagögnum og framburði vitna fyrir dómi var talið að ákvörðun lögreglustjórans hefði ekki verið reist á málefnalegum sjónarmiðum, sem væri skilyrði lögmæti ákvörðunar eftir 19. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þá var litið svo á að þótt launakjör aðstoðaryfirlögregluþjónsins hefðu ekki verið skert með ákvörðuninni og hún verið tímabundin hefði ákvörðunin verið meira íþyngjandi fyrir hana en nauðsyn hefði borið til, þar sem í ákvörðuninni hefði falist að hún hefði verið færð úr því starfi, sem hún hafði verið skipuð í, og sett í hliðarverkefni, sem hún hafði áður sinnt meðfram aðalstarfi sínu. Hefði ákvörðunin því brotið í bága við fyrrgreint lagaákvæði. Var íslenska ríkinu gert að greiða aðstoðaryfirlögregluþjóninum miskabætur og bætur vegna fjártjóns.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.