Stjórnvaldssektir vegna brota á lögum um gjaldeyrismál felldar niður

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóma í tveimur málum þar sem deilt var um gildi og efni ákvarðana Seðlabanka Íslands um að leggja stjórnvaldssekt á tvö einkahlutafélög vegna nánar tilgreindra brota á lögum um gjaldeyrismál. Þá laut ágreiningur aðila að skyldu íslenska ríkisins til að endurgreiða sektarfjárhæðina með dráttarvöxtum ef fallist yrði aðalkröfur einkahlutafélaganna um ógildingu ákvarðananna eða varakröfur um lækkun sektanna. Héraðsdómur taldi meðal annars að Seðlabankinn hefði ekki fært fyrir því rök að brot einkahlutafélaganna hefðu verið til þess fallin að valda alvarlegum óstöðugleika í gengis- og peningamálum, svo sem byggt var á í ákvörðun Seðlabankans. Þá hefðu ekki verið færð viðhlítandi rök fyrir því að brot félaganna hefðu verið sérlega alvarleg með tilliti til markmiða laga um gjaldeyrismál og því ekki efni til að gera þeim sérstaka sekt vegna brota sinna. Var sekt einkahlutafélaganna því felld niður og íslenska ríkinu gert að endurgreiða sektarfjárhæðina ásamt dráttarvöxtum. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms með vísan til forsendna hans.

Dómana í heild sinni má lesa hér og hér.