Ágreiningur um eignarétt að landspildu

Hæstiréttur kvað í dag upp dóm í máli er varðaði ágreining um eignarétt að tiltekinni spildu úr landi Litla-Saurbæjar I í Ölfusi, sem liggur að mestu vestan Suðurlandsvegar þar sem hann liggur niður Kamba. Á árinu 1986 afsöluðu eigendur jarðarinnar hluta hennar til tilgreinds manns, sem Landsbankinn leiddi rétt sinn frá. Þar var því lýst að  afsalað væri „þeim hluta jarðarinnar sem er neðan við veginn sem liggur niður í bæjarþorpið, ásamt öllum byggingum á því landi, ræktun, girðingum, svo og öllum gögnum og gæðum er lögbýlinu Litla-Saurbæ I fylgja og fylgja ber (landið ofan við áðurnefndan veg, ásamt fjárhúsi og hlöðu í því landi fylgja ekki með í kaupunum).“ Deildu aðilar um það hvort í þessu orðalagi fælist að land ofan vegarins hefði í heild sinni verið undanskilið eða einungis sá hluti þess lands sem var sérstaklega tilgreindur.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að í afsalinu væri það skýrlega orðað að einungis væri afsalað þeim hluta jarðarinnar sem væri neðan við veginn sem lægi niður í bæjarþorpið og jafnframt skilmerkilega tekið fram að landið ofan vegarins fylgdi ekki með í kaupunum. Kaupandinn hefði því engin eignarréttindi öðlast til lands ofan við veginn og þar sem hann  hefði ekki getað ráðstafað víðtækari rétti en hann hefði sjálfur átt hefði hann ekki getað framselt eða afsalað neinum réttindum ofan vegar. Hefðu því engin eignaréttindi skapast yfir því landi til handa þeim sem leiddu rétt sinn frá honum.

Á hinn bóginn vísaði Hæstiréttur til þess að með afsalinu frá árinu 1986 hefði landi jarðarinnar Litla-Saurbæjar I verið skipt. Var ekki séð að gætt hefði verið ákvæða jarðalaga við skiptin nema að takmörkuðu leyti. Yrði fallist á kröfu áfrýjanda um viðurkenningu á eignarétti hans á spildunni fælist í því fyrirvaralaus viðurkenning á skiptingu jarðarinnar og stofnun sérstakrar fasteignar í eigu hans án þess að gætt væri fyrirmæla jarðalaga um slík skipti. Taldi Hæstiréttur að 2. gr. stjórnarskrárinnar stæði því í vegi að unnt væri að fella efnisdóm á kröfuna í þessu horfi og að því yrði að vísa málinu frá héraðsdómi.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.