Biðlaun dæmd en miskabótum hafnað

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í máli þar sem einstaklingur krafði sveitarfélag annars vegar um biðlaun vegna niðurlagningar stöðu hans sem deildarstjóra við skóla í sveitarfélaginu og hins vegar miskabætur vegna ætlaðs brots sveitarfélagsins við ráðningu í stöðu skólastjóra við skólann en maðurinn var meðal ellefu umsækjenda um starfið. Hafði héraðsdómur komist að þeirri niðurstöðu að ekki væru uppfyllt skilyrði til að fallast á kröfu hans um biðlaun en féllst á kröfu hans um miskabætur. Sneri Hæstiréttur þeirri niðurstöðu við og taldi að hann ætti rétt á biðlaunum í tólf mánuði samkvæmt þeim kjarasamningi sem gilti þegar uppsögnin kom til framkvæmda. Hins vegar var ekki talið að hann hefði hnekkt því mati sveitarfélagsins að þeir sex umsækjendur sem boðaðir voru í viðtöl vegna skólastjórastöðunnar hefðu staðið honum framar samkvæmt þeim menntunar- og hæfniskröfum sem gerðar voru í auglýsingu um stöðuna. Var kröfu mannsins um miskabætur því hafnað.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.